Erlent

Bíl ekið á gangandi vegfarendur á Times Square

Samúel Karl Ólason skrifar
Vitni segja að bílnum hafi verið ekið á móti umferð áður en hann lenti á fólkinu.
Vitni segja að bílnum hafi verið ekið á móti umferð áður en hann lenti á fólkinu. Vísir/EPA
Mikill viðbúnaður var á Times Square í New York á tólfta tímanun í morgum, um klukkan fjögur að íslenskum tíma, þegar bíl var ekið á gangandi vegfarendur. Minnst einn er látinn samkvæmt fjölmiðlum ytra, en minnst þrettán manns eru sagðir hafa orðið fyrir bílnum þar sem honum var ekið eftir gangstétt.

Myndir af vettvangi sýna að svo virðist sem að einn maður hafi verið handtekinn og segja vitni að bílnum hafi verið ekið á móti umferð áður en hann lenti á fólkinu.

Lögreglan segir að fyrstu vísbendingar gefi í skyn að um slys hafi verið að ræða. Atvikið er ekki talið vera hryðjuverk.

Heimildir fjölmiðla úti segja ökumanninn hafa verið 26 ára gamlan mann frá New York, sem hafi tvisvar sinnum verið handtekinn fyrir ölvunarakstur og að hann hafi margsinnis verið sviptur ökuréttindum.

Maðurinn er nú sagður vera í prófum svo hægt sé að skera úr um hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Vitni segja hann hafa reynt að hlaupa á brott eftir að bíllinn staðnæmdist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×