Skoðun

Áskorun til alþingismanna – Frumvarp um jöfnuð á vinnumarkaði

Rannveig Sigurðardóttir skrifar
Það var í febrúar 2008 við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum að ekki var hægt að undirrita samninga nema að samþykkja skerðingu á örorkubótum í slysakafla kjarasamninganna.

Til að átta sig á málinu, er rétt að vísa til kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum, sem kveða á um að atvinnurekendum sé skylt að tryggja launamenn fyrir slysum í vinnu og á leið til og frá vinnu. Þessar tryggingar kaupa þeir hjá tryggingafélögum, sem tryggja vinnuvikur. Hvergi í tryggingunum er tekinn fram aldur þeirra sem tryggðir eru eða nöfn þeirra skráð í vátryggingaskírteinum.

Í þeim samningi sem undirritaður var á árinu 2008 fengu launamenn á almenna vinnumarkaðnum mikla kjarabót að öðru leyti, allar bótafjárhæðir voru hækkaðar, aldur barna hækkaður þegar kemur að dánarbótum og stærsta kjarabótin var að allar fjárhæðir í slysakaflanum voru tengdar vísitölu. Ég er ekki viss um að launamenn geri sér almennt grein fyrir hversu mikil kjarabót það var.

Brot á jafnræðisreglu Stjórnarskrár Íslands

En því miður lauk þessum samningi með skerðingu á örorkubótum slysakaflans. Ef launamaður slasast á vinnutíma eða á leið til og frá vinnu og hlýtur varanlegan líkamlegan skaða vegna slyssins og er svo óheppinn að vera orðinn 50 ára, skerðist örorka hans um 2% fyrir hvert aldursár eftir það, þó aldrei meira en 90%. Einnig var bótatími dagpeninga styttur úr 52 vikum í 37 vikur. Sá launamaður sem orðinn er 50 ára eða eldri tapar því bótum sínum með skerðingarákvæðinu. Hver græðir? Við þetta hafa launamenn á almenna vinnumarkaðnum búið síðan.

Skerðing af þessu tagi er ekki í kjarasamningum þeirra sem vinna hjá ríkinu eða hjá sveitarfélögunum.

Þetta er mismunun og að mínu mati brot á 65. gr. Stjórnarskrár Íslands, jafnræðisreglunni.

Þessu hef ég haldið fram frá þessum degi í febrúar 2008, sérstaklega innan launþegahreyfingarinnar, en aldeilis fyrir daufum eyrum forystumanna ASÍ. Við gerð samninga um veikinda- og slysakafla kjarasamningsins hafa stéttarfélögin innan ASÍ a.m.k. frá árinu 2004 gengið sameinuð að samningaborðinu. Krafan um að taka út þessa skerðingu hefur aldrei verið sett fram í samningagerðinni, þrátt fyrir beiðni mína þar um.

Takk fyrir, ráðherra

Við skoðun á frumvarpi félags- og jafnréttismálaráðherra um jafna meðferð á vinnumarkaði kemur í ljós að árið 2000 kom tilskipun frá ESB nr. 2000/78/EB um almennar reglur um jafnrétti á vinnumarkaði og í starfi. Mér skilst að í upphafi árs 2003 hafi íslensk stjórnvöld ákveðið að aðlaga þessa tilskipun íslenskum lögum. En síðan eru liðin mörg ár.

Auðvitað átti forysta verkalýðshreyfingarinnar að taka þessa tilskipun og beita sér fyrir innleiðingu hennar. Gaman væri að fá upplýsingar um hvort forystan hafi gert það, ég hef ekki heyrt neitt um það. Því eins og forysta ASÍ sagði svo eftirminnilega í október 2008: „Það eina sem getur bjargað Íslandi í dag er innganga í Evrópusambandið.“ Þversögn í orði og verki.

Því vil ég þakka Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttisráðherra, fyrir hans framlag til að jafna stöðuna á vinnumarkaðnum og virða almenn mannréttindi.

Athugasemd – tíminn skiptir máli

En eitt vil ég gera athugasemdir við. Í 19. gr. frumvarpsins segir um gildistöku laganna: „Þó skulu ákvæði laga þessara ekki gilda um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 1. gr., fyrr en 1. júlí 2019.“

Kjarasamningur flestra á almenna vinnumarkaðnum rennur út 31.12.2018. Hvers vegna má aldursákvæðið ekki taka gildi 1.1.2019, þannig að hægt sé að semja þá?

Ég trúi því ekki að vinnumarkaðurinn og ráðuneytin þurfi rúmlega tvö ár til að yfirfara lög og kjarasamninga til að leiðrétta aldursmörk í lögum og samningum.

Ég skora á alla alþingismenn að samþykkja þetta frumvarp, en breyta gildistíma aldursákvæðisins til 1. janúar 2019. Ég ítreka að jöfnuður á vinnumarkaði næst ekki fyrr en skerðingarákvæði slysakafla kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hverfur úr samningunum.

Það er einlæg ósk mín að á mig verði hlustað af þingmönnum, því þeirra eyru eru þau réttu eftir áralanga baráttu um jöfnuð fyrir launamenn. Jöfnuður á vinnumarkaði er mikilvæg og sjálfsögð mannréttindi.




Skoðun

Sjá meira


×