Skoðun
Elín M. Stefánsdóttir, bóndi og stjórnarkona í Auðhumlu svf.

Mjólk í sókn

Elín M. Stefánsdóttir skrifar

Sagt er að þau fyrirtæki sem búa ekki við aðhald samkeppnisreglna setji upp hærra verð, framleiði minna, fjárfesti minna, setji minna fé í vöruþróun og leiti að nýjum mörkuðum og veiti minni atvinnu en þau sem búa við samkeppni. Mjólkuriðnaðurinn á Íslandi nýtur leyfis til samvinnu sín á milli og er um að ræða svokallaða undanþágu frá samkeppnislögum.

En á þessi speki við um framleiðslu mjólkur á Íslandi? Hver er raunveruleikinn á mjólkurmarkaðinum?

Mjólkuriðnaðurinn hefur á sl. árum aldrei framleitt úr meiri mjólk á Íslandi. Hann er bundinn af opinberri verðlagningu, en verðlagsnefnd búvara ákvarðar verð á helstu mjólkurafurðum hér á landi. Þá stunda mjólkurfyrirtæki á Íslandi öflugt vöruþróunarstarf og setja á markað fjöldann allan af vörunýjungum á hverju ári samanborið við nágrannaríki. Þá hefur mikil sókn verið á nýjum mörkuðum bæði innanlands og utan, t.d. með próteinríkum vörum og skyri sem hefur átt mikilli velgengni að fagna á erlendri grundu.

Síðastliðin 30 ár hefur bændum fækkað úr 1.600 í tæplega 600. Störfum í framleiðslu hefur fækkað um 30 prósent en sú fækkun er aðallega til komin vegna sameiningar og krafna um aukna hagræðingu frá stjórnvöldum ásamt fjárfestingu í nýjum og sjálfvirkum tækjabúnaði sem krefst minni mannafla en áður. Þá hafa sprottið upp minni fyrirtæki sem sinna þörfum markaðarins með framleiðslu á t.d. lífrænni mjólk og laktósafríum vörum svo eitthvað sé nefnt.

Undanþága frá samkeppnislögum til samvinnu fyrir mjólkuriðnaðinn er veitt vegna erfiðra skilyrða á Íslandi til hagkvæmrar framleiðslu um allt land. Bændur sameinast í félag um að sækja mjólkina inn í innstu firði og út á ystu nes og við henni taka framleiðslufyrirtæki í þeirra eigu sem skylduð eru til þess að framleiða nauðsynlegar vörur innan ákveðinna verðtakmarkana.

Markmiðið breytinganna var og er að færa neytendum góðar heilnæmar vörur á eins hagstæðu verði og mögulegt er og bændum kjör sem eru í samræmi við aðrar stéttir og vel hefur tekist til.
Skoðun

Sjá meira