Innlent

Sér fram á tekjuleysi í rúmt ár

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ásta Ákadóttir og Alexandra.
Ásta Ákadóttir og Alexandra.

Ekkert dagforeldri er í Bolungarvík en það næsta er á Ísafirði og sinnir nærliggjandi sveitarfélögum. Þar er hins vegar allt fullt og standa fimm konur í Bolungarvík frammi fyrir því að komast ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en börn þeirra ná leikskólaaldri.

Ásta Ákadóttur átti Alexöndru í ágúst í fyrra og er níu mánaða fæðingarorlof hennar að klárast í maí. Leikskólinn tekur ekki við Alexöndru fyrr en sumarið 2018 og sér Ásta því fram á að vera tekjulaus í rúmt ár. Hún segir stöðuna afar erfiða.

„Þetta er bara rosalega leiðinlegt. Að geta ekki farið út á vinnumarkaðinn þegar maður er búinn í fæðingarorlofinu og það er ekkert í boði fyrir mann. Maður stendur bara á tómu blaði og veit ekki hvað maður á að gera," segir Ásta.

Ásta telur nauðsynlegt að bæta þjónustuna eigi barnafjölskyldur ekki að flytjast úr bænum „Mér finnst bara í fyrsta lagi að ef þú ætlar að hafa fjölskyldufólk í bænum að þetta eigi að vera í topplagi. Þannig að fólk vilji nú eignast börn hérna og komast út á vinnumarkaðinn eftir á."

Engin dagmamma hefur verið starfandi í Bolungarvík í tvö ár og hefur húsnæði til starfseminnar staðið autt í þann tíma. Guðný Hildur Magnúsdóttir, félagsmálastjóri í bænum, segir vonlaust að fá dagforeldra til starfa þar sem erfitt sé að mynda úr því heilsársvinnu sökum fámennis.

Stækkun á leikskólanum á leikskólanum er þó í hönnunarferli og vonast Guðný vonast til þess að hægt verði að taka inn yngri börn að því loknu.

„Núna fást bara ekki dagforeldrar til starfa svo að það þarf bæði að lengja fæðingarorlof og taka börn fyrr inn á leikskóla og ég veit að flest sveitarfélög eru að vinna að því," segir Guðný.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira