Erlent

Norðmenn þreyttir á heræfingum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Bandarískir hermenn á Keflavíkurflugvelli.
Bandarískir hermenn á Keflavíkurflugvelli. vísir/stefán
Alls hafa 330 bandarískir hermenn verið við æfingar í Værnes í Nyrðri-Þrændalögum frá því í janúar. Hermennirnir eiga að stunda æfingar við norsk vetrarskilyrði. Eftir sex mánaða æfingar taka aðrir við. Rétt við æfingasvæðið eru birgðir bandarískra hergagna fyrir 17 þúsund hermenn, að því er norska ríkisútvarpið greinir frá.

Kennari við norska herskólann telur að æfingar við vetrarskilyrði séu ekki ástæða dvalar hermannanna í Noregi. Mikilvægasta ástæðan sé stutt vegalengd til eins af varasömustu svæðum Evrópu, Eystrasaltsins. Það sé mikil áskorun fyrir NATO hvernig koma megi Eystrasaltslöndunum og Póllandi til aðstoðar á trúverðugan hátt komi til átaka við Rússa á Eystrasalti.

Búðirnar hafa sætt gagnrýni í Noregi þar sem þær líkist erlendri herstöð. Rússar hafa einnig lýst yfir áhyggjum vegna þeirra.

Norska varnarmálaráðuneytið fullyrðir að einungis sé um æfingabúðir að ræða en yfirmenn í bandaríska hernum hafa á vefsíðunni military.com látið í ljósi óskir um að gera Værnes að aðalbækistöð sinni í Evrópu. Þeir vilja jafnframt tvöfalda fjölda bandarísku hermannanna þar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×