Erlent

Vitni segja bílstjórann hafa ætlað sér að keyra á vegfarendur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/Getty

Vegfarendur sem urðu vitni að því þegar ökumaður ók bíl sínum á gangandi vegfarendur á Times Square í New York í dag segja að augljóst sé að um ætlunarverk hafi verið að ræða.

Þetta kemur fram í frétt Reuters þar sem rætt er við fjölmörg vitni. Eru þau öll sammála um að ökumaðurinn hafi ætlað sér að keyra á vegfarendur.

„Þetta var viljarverk,“ segir Cheryl Howard sem var á ferð í grennd við atvikið. Dóttir hennar slasaðist á handlegg í hamaganginum.

„Hann var að miða á eins mikið af fólki og hann mögulega gat. Þetta var blóðugt og óhugnanlegt,“ sagði vitni að nafni Andrew.

Átján ára gömul kona lést er hún varð fyrir bílnum og minnst 22 slösuðust og skildi bíllinn eftir sig mikla eyðileggingarslóð.

Vitni lýsa því hvernig bílnum var ekið upp á gangstétt við Times Square, sem er afar fjölfarinn ferðamannastaður í New York, og var ekið á allt sem í vegi hans varð.

Í frétt Reuters segir einnig að tvær konur hafi verið á ferð með barnavagna á sama stað og bíllinn fór upp á gangstéttina aðeins örfáum sekúndum áður en það gerðist.

Bílstjórinn var handtekinn á vettvangi en lögregla segir að ekkert bendi til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira