Erlent

Ökumaðurinn heyrði raddir

Samúel Karl Ólason skrifar
18 ára kona lét lífið og 22 eru slasaðir.
18 ára kona lét lífið og 22 eru slasaðir. Vísir/AFP

Hinn 26 ára gamli Richard Rojas sagði lögreglu að hann heyrði raddir og að hann hafi ætlað sér að deyja. Þegar hann var handtekinn eftir að hafa ekið á minnst 23 einstaklinga á Times Square í gær gargaði hann á lögregluþjóna að þeir hefðu átt að skjóta hann og að hann hafi viljað drepa fólk.

Ein 18 ára kona lét lífið eftir að hún varð fyrir bíl Rojas, sem er fyrrverandi meðlimur í flota Bandaríkjanna. Lögreglan telur að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða og að Rojas hafi verið undir áhrifum fíkniefna samkvæmt frétt BBC.

Fjórir eru sagðir í alvarlegu ástandi og þrír til viðbótar slösuðust mikið, samkvæmt frétt ABC.

Fyrr í mánuðinum var Rojas handtekinn fyrir að ógna manni með hnífi, en hann hefur margsinnis komist í kast við lögin á undanförnum árum. Árið 2012 réðst hann á leigubílstjóra í Flórída og hótaði að myrða lögregluþjóna.

Á öryggismyndböndum úr nágrenninu má sjá hvernig Rojas tekur U-beygju á miklum hraða og keyrir upp á gangstétt þar sem fjöldi fólks er á göngu. Hann keyrði svo eftir gangstéttinni á miklum hraða þangað til hann keyrði á vegatálma. Þá reyndi hann að flýja af vettvangi en var stöðvaður af almennum borgurum.

Einn þeirra sem tók þátt í að yfirbuga Rojas segir hann hafa öskrað og eitthvað mikið hafi verið að honum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira