Körfubolti

Lebron og félagar með met „Showtime“ Lakers-liðsins í sjónmáli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Magic Johnson.
LeBron James og Magic Johnson. Vísir/Getty

LeBron James og félagar hans í Cleveland Cavaliers liðinu hafa ekki tapað leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar síðan að þeir voru lentir 3-1 undir í lokaúrslitunum í fyrra.

Cleveland liðið vann þrjá síðustu leiki lokaúrslitanna á móti Golden State Warriors og tryggði sér NBA-titilinn. Liðsmenn Cleveland Cavaliers hafa síðan unnið níu fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni í ár.

Clevaland sló bæði Indiana Pacers og Toronto Raptors út 4-0 og er síðan komið í 1-0 á móti Boston Celtics í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar.

Cleveland Cavaliers er þar með komið með tólf sigra í röð í úrslitakeppninni og geta jafnað 28 ára gamalt met með sigri í næsta leik á móti Boston Celtics sem verður í kvöld.

Gamla metið á „Showtime“ Lakers-liðið sem vann tvo NBA-meistaratitla í röð frá 1987-88. Liðið vann þrettán leiki í röð frá 19. júní 1988 til 6. júní 1989. Vondu strákarnir í Detroit Pistons stoppuðu sigurgöngu Lakers í lokaúrslitunum 1989 og tók síðan líka af þeim NBA-titilinn seinna um sumarið.

Í Lakers-liðinu voru þeir Magic Johnson, Kareem Abdul-Jabbar og James Worthy í aðalhlutverkum.

Liðið fékk á sig „Showtime“ stimpilinn fyrir hraðaupphlaupin þar sem frákastararnir Kareem Abdul-Jabbar, Kurt Rambis, og A. C. Green voru fljótir að koma boltanum á Magic Johnson sem keyrði upp hraðaupphlaupin sem enduðu með körfum eða troðslum frá mönnum eins og Jamaal Wilkes, James Worthy, Byron Scott eða Michael Cooper.

LeBron James hefur verið gjörsamlega óstöðvandi í sigurgöngu Cleveland-liðsins en í þessum tólf sigurleikjum í röð hefur hann skorað 32 stig eða meira í tíu leikjum og er með meðaltöl upp á 35,2 stig, 9,7 fráköst, 7,8 stoðsendingar og 2,3 stolna bolta. Hann hefur hitt úr 54 prósent skota sinna og 43 prósent þriggja stiga skot sinna í þessum tólf leikjum.

Flestir sigurleikir í röð í úrslitakeppni NBA:
13 - Los Angeles Lakers 1988-1989
12 - Detroit Pistons 1989-1990
12 - San Antonio Spurs 1999
12 - Los Angeles Lakers 2000-01
12 - Cleveland Cavaliers 2016-
10 - New Jersey Nets 2003
10 - San Antonio Spurs 2012
10 - Cleveland Cavaliers 2016
10 - Golden State Warriors 2017-


Leikur Cleveland Cavaliers og Boston Celtics í kvöld verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan hálf eitt.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira