Enski boltinn

Lofar Kane sem einn besta framherja heims: Þurfum ekki að selja hann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pochettino óskar Kane til hamingju með fernuna.
Pochettino óskar Kane til hamingju með fernuna. Vísir/Getty

„Harry Kane er sérstakur leikmaður og hann elskar Tottenham. Þeir leikmenn sem við viljum halda verða áfram hjá Tottenham.“

Þetta sagði Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, eftir 6-1 sigur hans manna á Leicester í ensku úrvalsdeildinni í gær. Harry Kane skoraði fernu í leiknum og er orðinn markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 26 mörk.

Þessi 23 ára framherji hefur ekki gefið eftir síðan hann kom fram á sjónarsviðið en hann var markahæsti leikmaður ensku deildarinnar í fyrra með 25 mörk.

Hann, sem og Dele Alli og Kyle Walker, hafa verið orðaðir við stærstu lið Evrópu en Pochettino er staðfastur og segir að félagið hafi fullt vald til að ákveða hvaða leikmenn verði áfram og hverjir fara.

„Við höfum engar áhyggjur af stóru leikmönnunum okkar og þeir eru afar ánægðir hér,“ sagði Pochettino. „Við erum að búa til eitthvað sérstakt hér og leikmenn vilja vera áfram og taka þátt í velgengninni.“

„Harry Kane hefur mikla þýðingu fyrir liðið. Hann er einn besti framherji heims,“ sagði Pochettino en þess má geta að Harry Kane missti af átta leikjum í deildinni í vetur vegna meiðsla.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira