Fótbolti

Anderlecht varð belgískur meistari í gær og hlóð að sjálfsögðu í Víkingaklapp | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
HÚH!
HÚH! vísir/getty
Víkingaklappið lifir áfram góðu lífi sem vinsælasti hlutur hjá stuðningsmönnum nokkurs liðs að grípa í þegar vel gengur. Skiptir í raun ekki máli hvort um fótbolta sé að ræða eða aðra íþrótt.

Íslenskir stuðningsmenn í samvinnu við strákana okkar gerðu Víkingaklappið ódauðlegt á EM í Frakklandi síðasta sumar og hafa margir stuðningsmannakjarnar um víða veröld hermt eftir þessu skemmtilega fagni.

Nú síðast voru það leikmenn og stuðningsmenn belgíska fótboltastórveldisins Anderlecht sem fögnuðu 34. Belgíumeistaratitli sínum með Víkingaklappi í gærkvöldi.

Anderlecht vann 3-1 útisigur á Charleroi í gærkvöldi sem dugði til að halda aftur af Club Brugge í baráttunni um titilinn. Anderlecht hirti toppsætið af Club Brugge á lokadegi deildarkeppninnar og var á toppnum alla úrslitakeppnina.

Hér að neðan má sjá leikmenn og stuðningsmenn taka, eða meira svona reyna að taka, almennilegt Víkingaklapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×