Lífið

Ævintýralega falleg vinátta

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Vinirnir frá vinstri: Nicola Nicklas Olivieri (fremstur á mynd), Andrea Cristofaro, Roberta Albertini, Carolina Bertolli, Manuel Speroni, Victor Alexander Guðjónsson (aftast til hægri) og Sigurður Sverrison.
Vinirnir frá vinstri: Nicola Nicklas Olivieri (fremstur á mynd), Andrea Cristofaro, Roberta Albertini, Carolina Bertolli, Manuel Speroni, Victor Alexander Guðjónsson (aftast til hægri) og Sigurður Sverrison. MYND/ANTON

„Guði sé lof fyrir sterka og dýrmæta vináttuna," segja ítölsku verkfræðinemarnir Nicola Nicklas Olivieri og Manuel Speroni, sem kynntust íslenskum strákum úr Breiðholtinu á Grundarfjarðardögum sumarið 2013.

„Faðir minn hafði ferðast til Íslands á sínum yngri árum og oft talað fallega um Vestfirði og ævintýralega ferð að Látrabjargi,“ segir Nicola um tilurð Íslandsferðar þeirra Manuels og Andrea Marti, þegar þeir hrukku upp með andfælum við gítarleik og söng Victors Alexanders Guðjónssonar, Sigurðar Sverrissonar og Friðriks Önfjörð sem staddir voru í sinni fyrstu tjaldútilegu sem ungir og upprennandi menn á Grundarfjarðardögum.

„Við höfðum komið við í nokkrum bæjum á leið okkar um landið og vakti furðu að hvar sem við komum sást varla sála á ferli. En þegar til Grundarfjarðar kom var allt krökkt af fólki og hvergi laust rými til að tjalda fyrir utan lítinn grasbala við klósettin,“ útskýrir Nicola um tilhögun örlaganna að þeir kynntust íslensku strákunum.

Smeykir við Bessastaði

„Við vinirnir höfðum hringsólað í leit að tjaldstæði þegar við fundum loks blett við hliðina á stöku tjaldi þar sem Ítalirnir reyndust vera. Þegar kvöldaði meir tókum við fram gítara og byrjuðum að syngja og hafa gaman. Við það raskaðist næturfriður Ítalanna sem drifu sig forviða út en þá hafði hópur fólks safnast saman við tjaldið okkar og tók undir með íslenskum ættjarðarlögum, Bubba og þessum alkunnu sem gjarnan eru sungin á íslenskum sumarnóttum,“ segir Victor um upphaf kynna þeirra Sigurðar við Nicola og Manuel sem vaxið hafa og dafnað æ síðan.

„Það varð úr að við Sigurður buðum þeim að hitta okkur í Reykjavík þar sem við sýndum þeim borgina, buðum upp á Bæjarins bestu og bönkuðum að gamni upp á á Bessastöðum þar sem enginn kom til dyra. Við höfðum ekki sagt þeim hver þar væri húsráðandi en þegar við ljóstruðum upp að það væri forseti lýðveldisins urðu Ítalirnir skelkaðir, lögðust á grúfu og bjuggust við leyniskyttum á hverri stundu því þannig væri tekið á málum í þeirra heimalandi,“ segir Victor og brosir að minningunni.
Við kveðjustund buðu Ítalirnir þeim Victori og Sigurði að heimsækja sig til Ítalíu og árið eftir fóru íslensku strákarnir til Busto Arsizio, þar sem Nicola og Manuel búa, rétt utan við Mílanó.

„Þar var tekið á móti okkur eins og týndu sonunum, búið til heimagert rauðvín af vínekrunni og við horfðum á ömmuna handgera heimagert pasta frá grunni og mömmuna skera svínið. Það var mikil upplifun fyrir stráka úr Breiðholtinu. Við þvældumst um með strákunum og fórum meðal annars í köfun að Jesústyttunni í djúpinu við San Fruttuoso, sem var ógleymanleg upplifun. Ári síðar fögnuðum við áramótunum með strákunum á Ítalíu, fórum um Toskana, til Flórens og Siena og eignuðumst enn fleiri vini því vinahópur Nicola og Manuels er stór.“

Heimilismatur hjá ömmu

Nú eru Nicola og Manuel í Íslandsdvöl hjá Victori og Sigurði. Með þeim í för eru Andrea Cristofaro, Carolina Bertolli og Roberta Albertini, öll verkfræðinemar nema Roberta sem er lyfjafræðingur.

„Allar okkar samverustundir hafa verið töfrandi upplifun og ævintýri. Ítalirnir eru gapandi yfir gimsteinum íslenskrar náttúru og gómsæta íslenska matnum. Við höfum fætt þá á hangikjöti, hákarli, harðfiski og brennivíni, sem þeim þótti himneskur drykkur og ruku svo beint í búðina til að kaupa sér meiri harðfisk! Þeir hafa aldrei heyrt um kokteilsósu, mexíkóska kjúklingasúpu eða hvítlauksbrauð með lasanja, eins og Íslendingar þekkja vel úr sínum eldhúsum, en dásama það allt. Hins vegar mættu Íslendingar temja sér ítalska ástríðu fyrir sameiginlegu borðhaldi því ólíkir borðsiðir þjóðanna eru sláandi. Þegar við borðum með Ítölunum má enginn fara frá borði nema að allir séu búnir að borða og allir sitja lengi saman við borðið, án síma.“

Victor er í sumarhúsi í Landsveitinni þegar blaðamaður tekur á honum hús og þar í sveitinni fylgjast Ítalirnir stóreygir með sauðburði og skoða einstakar fornminjar. Búið er að fara í Þórsmörk, á Þingvelli, í Bláa lónið, til Vestmannaeyja, um höfuðborgina þvera og endilanga og setjast að íslenskum heimilismat hjá ömmum og mömmum eins og tíðkast á Ítalíu.

„Maður upplifir land og þjóð nánar og á allt annan hátt í fylgd heimamanna. Ítalirnir vilja helst ekki fara heim og sjálfur hef ég fengið nýja sýn á landið mitt með þeim og rifjað upp þjóðsögur og draugasögur sem skotið hafa þeim skelk í bringu. Við höfum svo margar sögur að segja hvert öðru af landi okkar og þjóð og verðum aldrei uppiskroppa með umræðuefni. Mig grunar að þessi sterka og skemmtilega vinátta eigi eftir að vaxa og dafna um langan veg og næsta sumar ætlum við að njóta ítalska sumarsins á Sardiníu.“

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira