Viðskipti innlent

Aurora Seafood fékk 200 milljónastyrk frá Evrópusambandinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Styrkurinn er einnig mikilvægt skref í þá átt að hefja vistvænar veiðar á sæbjúgum víðsvegar um Evrópu, segir í tilkynningunni frá Aurora Seafood.
Styrkurinn er einnig mikilvægt skref í þá átt að hefja vistvænar veiðar á sæbjúgum víðsvegar um Evrópu, segir í tilkynningunni frá Aurora Seafood. Vísir/Vilhelm
Íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Aurora Seafood hlaut í dag 1,7 milljón evra styrk (um 192 milljónir króna.) til að þróa og tæknivæða veiðar og vinnslu á sæbjúgum. Styrkurinn er veittur úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins (ESB) og nefnist SME Instrument.

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki hlýtur svo háan styrk. Styrkurinn er einnig mikilvægt skref í þá átt að hefja vistvænar veiðar á sæbjúgum víðsvegar um Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aurora Seafood.

Davíð Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Aurora Seafood ehf., segir í tilkynningunni að félagið hafi lagt áherslu á að þróa veiðar og vinnslu á sæbjúgum, en Ísland er eina landið í Evrópu þar sem markviss nýting á þeim er stundið.

„Styrkurinn er mikilvægur fyrir okkar starf og sýnir jafnframt tiltrú á möguleikum þess að nýta sæbjúgu, ekki bara hér á landi heldur einnig víðar um Evrópu. Ef vel tekst til mun íslensk þekking og frumkvöðlastarfsemi í sjávarútvegi skapa ný tækifæri víðar í Evrópu,“ segir Davíð.

Gróska í Íslenska sjávarklasanum

Við undirbúning umsóknarinnar til Evrópusambandsins naut Aurora Seafood aðstoðar íslenska ráðgjafafyrirtækisins Evris ehf. og spænska fyrirtækisins Inspiralia. Aurora Seafood ehf. og Evris ehf. eru bæði með aðsetur í Íslenska sjávarklasanum og gott dæmi um hið gróskumikla samstarf sem þar fer fram.

Aurora Seafood starfrækir skipið Klett ÍS 808 sem er 29 metra langt skip sem er sérstaklega útbúið til veiða á sæbjúgum. Innan félagsins starfa Kári P. Ólafsson og Bergur Garðarson sem voru brautryðjendur að nýtingu sæbjúgna árið 2003.

Markmið Horizon 2020 er að styðja við rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum vísinda og fræða með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa góð störf, stuðla að því að fleiri góðar hugmyndir komist á markað og skapi þar með samfélaginu arð með sjálfbærni að leiðarljósi. Nánar um 2020 Horizion.

SME Instrument er tveggja þrepa umsóknaferli en árangur Aurora Seafood ehf. er einstakur því umsóknir fyrirtækisins hlutu brautargengi í fyrstu atrennu í báðum þrepum. Því liðu aðeins níu mánuðir frá því að umsókn um fyrsta þrep var send inn þar til hinn stóri styrkur var í höfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×