Enski boltinn

Clement varar Gylfa við að fara í stærra lið: Er betra að vera lítill fiskur í stórri tjörn?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur.
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur. vísir/getty

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, varar Gylfa Þór Sigurðsson við því að fara til stórliðs eins og Tottenham en íslenski landsliðsmaðurinn er eftirsóttur og gæti yfirgefið velska liðið í sumar.

Everton er sagt ætla að bjóða 25 milljónir punda í Gylfa Þór sem spilaði áður í tvö ár fyrir Tottenham áður en hann gafst upp á litlum spiltíma þar og gekk aftur í raðir Swansea.

Hjá Swansea hefur Gylfi Þór orðið einn af bestu miðjumönnum ensku úrvalsdeildarinnar en hann er búinn að skora níu mörk og leggja upp þrettán á tímabilinu.

„Gylfi er í einstakri stöðu,“ sagði Clement á blaðamannafundi í morgun. „Hann var hér á láni en fór svo til Tottenham til að taka næsta skref á sínum ferli. Það gekk ekki upp.“

„Hann kom aftur til Swansea og hefur staðið sig frábærlega. Hann getur ekki farið í annað lið núna og lent í því sama og hjá Tottenham þar sem hann er inn og út úr liðinu. Hann verður að hafa það í huga þegar hann ákveður sig.“
„Þá er betra að vera áfram hér sem lykilmaður og halda áfram að koma þessu félagi upp á næsta þrep,“ sagði Clement.

Gylfi Þór er í þeirri stöðu, segir Clement, að hann þarf að ákveða hvort hann vilji vera aðalmaðurinn í sínu liði eða vera í minna hlutverki hjá stærra liði.

„Það er fullt af leikmönnum sem þurfa að taka svona ákvörðun. Ég er ekkert endilega að tala um Gylfa en vilja þessir menn vera litlir fiskar í stórri tjörn eða stórir fiskar í lítilli tjörn? Gylfi er metnaðarfullur og það skil ég vil. Ég vona að hann verði hér áfram en líka að hann fái tækifæri til að spila fyrir stórlið í framtíðinni,“ sagði Paul Clement.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira