Innlent

Stjórnarmeirihlutinn vill kanna einkavæðingu Keflavíkurflugvallar

Heimir Már Pétursson skrifar
Eignirnar á Keflavíkurflugvelli eru gífurlega verðmætar og hafa heyrst tölur upp í allt að tvö hundruð milljarðar í þeim efnum.
Eignirnar á Keflavíkurflugvelli eru gífurlega verðmætar og hafa heyrst tölur upp í allt að tvö hundruð milljarðar í þeim efnum. Vísir/Pjetur
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að skoðað verði að einkavæða eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli, þar með flugstöð Leifs Eiríkssonar og söluandvirðið nýtt til átaks í samgöngumálum. Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni segir þetta arfavitlausa hagstjórn og mikilvægt sé að aðalhliðið til og frá landinu sé í eigu ríkisins.

Fjárlaganefnd hefur lokið afgreiðslu sinni á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára og mun meirihluti nefndarinnar birta álit sitt á áætluninni síðar í dag. Þar er meðal annars lagt til að fallið verði frá hugmyndum Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónusta og aðrir kostir til tekjuöflunar skoðaðir, eins og að taka upp komugjöld til landsins. Það vekur líka athygli að meirihlutinn leggur til að skoðað verði að selja eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli, þar með flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Undanfarin nokkur ár hefur verið framkvæmt fyrir um 45 milljarða króna í flugstöðinni og mannvirkjum sem tengjast henni og hefur það verið gert með lánum með veðum í tekjum flugstöðvarinnar og án ríkisábyrgðar. En áætlanir eru um að fjárfesta þar fyrir allt að 100 milljarða án aðkomu ríkissjóðs.

Oddnýju G. Harðardóttur sem situr í fjárlaganefnd fyrir Samfylkinguna líst illa á þessar hugmyndir.

„Mér finnst að mikilvægasta hliðið okkar til og frá landinu eigi að vera í opinberum rekstri. Og eigi ekki að ganga kaupum og sölum,“ segir Oddný. Þá standi reksturinn á flugvellinum mjög vel undir sér og muni skila þjóðinni arði að nokkrum árum liðnum.

„Svo er það náttúrlega arfavitlaus hagstjórn að ætla að ætla að fara að selja svo verðmæta eign núna og setja fjármunina í vegakerfið. Núna þegar spennan í hagkerfinu er svona mikil. Þannig að þetta er afleit hugmynd,“ segir Oddný.

Eignirnar á Keflavíkurflugvelli eru gífurlega verðmætar og hafa heyrst tölur upp í allt að tvö hundruð milljarðar í þeim efnum.

Í fljótu bragði virðast ekki margir aðilar, ef einhver í landinu, hafa efni á því að kaupa þetta?

„Þetta yrði auðvitað boðið til sölu á evrópska efnahagssvæðinu geri ég ráð fyrir. Þannig að það geta allir boðið í ef þetta fer á markað,“ segir Oddný.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa stórir alþjóðlegir aðilar sem sérhæfa sig í rekstri flugvalla þegar sýnt því áhuga að taka yfir Keflavíkurflugvöll og þeir hafa fjárhagslegt bolmagn til þess. Þar með yrðu yfirráðin yfir flugstöðinni og jafnvel flugvellinum komin í hendur erlendra aðila.

„Það er bara svo mikilvægt að að svona starfsemi fyrir okkur sem eyþjóð sé í opinberum rekstri. Að það séu ekki einhver öfl sem ætli að græða á rekstrinum sem fara með svona mikilvæga starfsemi fyrir okkur Íslendinga. Mér finnst þetta bara óhugsandi. Eins og ég segi; þetta er bæði óskynsamleg hagstjórn og þetta er líka óskynsamleg stýring á hliðinu inn og út úr landinu,“ segir Oddný G. Harðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×