Viðskipti innlent

Costco sýnir bensínlítrann á 170 krónur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víst er að margur Íslendingurinn myndi fagna 169,90 krónum á lítrann verði verðið að veruleika.
Víst er að margur Íslendingurinn myndi fagna 169,90 krónum á lítrann verði verðið að veruleika. Vísir/Ernir

Allt er að verða klárt fyrir opnun Costco við Kauptún í Garðabæ á þriðjudaginn. Prófanir hafa staðið yfir við eldsneytisbúnaðinn undanfarna daga en Steve Pappas, aðstoðarforstjóri Costco, staðfesti við Fréttablaðið í gær að bensínstöðvarnar yrðu opnaðar fyrr en verslunin. Nokkrum dögum fyrr.

Fjórir dagar eru til opnunar og blasir verðið 169,90 krónur á lítrann við þeim sem eiga leið framhjá bensíndælunum. Sama verð er á öllum dælunum sem eru tólf. Sex box þar sem hægt er að dæla báðum megin. Virðist allt klárt til að setja upp tvær til viðbótar.

Bensíndælur Costco í Kauptúni. Vísir/GVA

Í frétt DV í morgun segir að ekki sé um rétt verð að ræða. Hvað sem veldur lækkaði  verð Orkunnar á bensíni á höfuðborgarsvæðinu í morgun.

Hægt er að kaupa bensín hjá Orkunni á 185,70 krónur á lítrann á Eiðistorgi, Miklubraut, Skemmuvegi og Spönginni eftir því sem fram kemur á vefsíðunni bensinverd.is sem byggir á tilkynningum frá olíufélögunum. Verðið hjá Orkunni lækkaði um tvær krónur á tólfa tímanum en það var 187,50 krónur.

Lítraverðið á dælunum hjá Costco hefur undanfarinn sólarhring verið 169,90 krónur fyrir bensín og 164,90 krónur fyrir dísel. Fróðlegt verður að sjá hvort sama verð verði á dælunum þegar opnað verður fyrir sölu. 

Verðið sem dælurnar sýna er 169,90 krónur á lítrann fyrir bensín og 164,90 krónur á lítrann fyrir díselinn. Vísir/Ernir

Steve Pappas, aðstoðarforstjóri Costco í Evrópu, hefur ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu það sem af er degi. Ljóst má telja að Costco-liðar eru meðvitaðir um hvaða verð þeir sýna á dælum sínum og þann mikla áhuga sem Íslendingar hafa á opnuninni.  

Costco er þekkt fyrir að bjóða lægra bensínverð en samkeppnisaðilinn til þess að teyma viðskiptavini sína til sín og kaupa aðrar vörur í versluninni. 

Lítrinn af bensíni hefur ekki kostað undir 170 krónur á lítrann síðan árið 2009.

Uppfært klukkan 13:05
Steve Pappas, aðstoðarforstjóri Costco í Evrópu, segir í svari við fyrirspurn Vísis að nú standi yfir prófun á búnaði og þjálfun starfsfólks.

„Bensínverðið hefur ekki enn verið ákveðið. Verðið verður birt við opnun,“ segir Pappas. Mögulegt sé að bensínstöðin opni óformlega áður en verslunin verði opnuð á þriðjudagsmorgun.

Hann sé ekki tilbúinn að tjá sig um mögulegt bensínverð sem stendur. Það sé þó markmið Costco að hjálpa meðlimum að spara peninga við öll kaup hjá Costco og þar sé benín og dísel engin undantekning.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
LEQ
0,73
1
115.500
ARION
0
11
44.870

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
VIS
-3,82
7
54.264
REGINN
-2,22
6
122.064
SJOVA
-1,97
3
22.290
HAGA
-1,39
3
52.401
SIMINN
-1,33
5
123.100