Fótbolti

Björgvin Freyr: Maður fer bráðum að kvarta undan leikjaálagi eins og Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Ægir, sem leikur í 3. deild, var væntanlega óskadráttur flestra þegar dregið var til 16 liða úrslita Borgunarbikars karla í fótbolta í hádeginu í dag.

Ægismenn, sem komu á óvart með því að vinna Þór í Inkasso-deildinni, voru lægst skrifaða liðið í drættinum í dag en það mætir Pepsi-deildarliði Víkings.

„Mér líst ágætlega á þetta. Við vissum alltaf að við myndum fá flottan mótherja þannig það er bara tækifæri í þessu fyrir strákana að sanna sig og halda áfram eþssu ævintýri sem við erum lagðir af stað í,“ segir Björgvin Freyr Vilhjálmsson, þjálfari Ægis, sem þekkir aðeins til í Víkinni.

„Ég spilaði síðast árið 2006 með Víking þannig þeir koma nú á heimaslóðir. Við höfum líka verið í ágætis samstarfi við Víkinga um leikmenn og annað í gegnum tíðina þannig þetta verður bara skemmtilegt verkefni.“

Björgvin lagði skóna á hilluna sem leikmaður árið 2006 og hafði ekki komið nálægt meistaraflokksbolta fyrr en hann var ráðinn þjálfari Þróttar Vogum á síðustu leiktíð.

„Ég fékk tækifæri að taka við Þrótti Vogum um mitt tímabil og nú var mér treyst fyrir þessu verkefni núna að taka við Ægi og halda áfram þeirri uppbyggingu sem þar er. Við viljum koma liðinu upp um deild,“ segir Björgvin Freyr.

„Sú vegferð heldur áfram í kvöld. Við eigum annan leik í deildinni í kvöld þannig maður fer að kvarta bráðum yfir leikjaálagi eins og José Mourinho.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira