Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - KA 2-1 | Þrumufleygur Eyjólfs í viðbótartíma tryggði sigurinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elfar Árni Aðalsteinsson og Eyjólfur Héðinsson berjast um boltann.
Elfar Árni Aðalsteinsson og Eyjólfur Héðinsson berjast um boltann. vísir/ernir
Eyjólfur Héðinsson var hetja Stjörnumanna í 2-1 sigri á KA í toppslag Pepsi-deildar karla á Samsung-vellinum í Garðabænum kvöld. Eyjólfur skoraði sigurmarkið á sjöundu mínútu uppbótartíma með bylmingsskoti upp í vinkilinn utarlega í vítateig Akureyinga.

Með sigrinum varð Stjarnan fyrsta liðið til að sigra nýliða KA sem voru búnir að taka stig á heimavelli Blika (3) og FH (1) en Garðbæingar eru nú búnir að vinna þrjá leiki í röð eftir jafntefli í fyrstu umferð.

Stjarnan var með frumkvæðið framan af og gekk betur að byggja upp sóknir. Hátt tempó var í leiknum og hann nokkur harður þar sem menn gáfu lítið eftir. Guðjón Baldvinsson kom heimamönnum yfir eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar á 22. mínútu.

Norðanmenn voru lítið búnir að skapa sér en náðu að jafna metin undir lok fyrri hálfleiks þegar Ásgeir Sigurgeirsson stýrði boltanum í netið eftir atgang í teig Stjörnumanna. Markið kom í kjölfar aukaspyrnu Hallgríms Mar Steingrímssonar sem hefur komið að flestum mörkum KA í sumar. 

Allt stefndi í jafntefli þegar Eyjólfur skoraði glæsilegt sigurmark á 96. mínútu með viðstöðulausu skoti upp í vinkilinn eftir misheppnaða hreinsun KA-manna. Fögnuður Stjörnumanna var gríðarlegur og svekkelsi norðanmanna mikið.

Af hverju vann Stjarnan?

Eyjólfur Héðinsson smellhitti boltann á ögurstundu. Þetta er ekki flóknara en það. Þótt Stjarnan hafi verið meira með boltann þá var það barátta sem einkenndi leikinn í kvöld þar sem færi voru af skornum skammti. Bæði mörkin komu eftir fast leikatriði og allt stefndi í jafntefli hjá toppliðunum.

Leikurinn opnaðist svo undir lokin þegar báðum liðum varð ljóst að enn væri möguleiki á þremur stigum þegar sex mínútum var bætt við, sem urðu að átta. Eyjólfur smellhitti boltann í vinkilinn á meðan KA menn náðu ekki að refsa Stjörnumönnum í skyndisóknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Leiknustu menn vallarins, Hallgrímur Mar og Hilmar Árni, sýndu flott tilþrif á vinstri kantinum og alltaf líklegir til að skapa usla. Gaui Baldvins var duglegur í framlínu Stjörnumanna og sama má segja um Ásgeir hjá KA sem er afar góður í loftinu. Skoraði líka markið sem allt stefndi í að myndi tryggja KA stig sem hefði verið frábær úrslit fyrir norðanmenn.

Eyjólfur Héðinsson var jafnbesti maður vallarins og þruma hans í lokin skildu að. Það er ekki hver sem er sem setur hann í vinkilinn á sjöttu mínútu viðbótartíma og ekki síst þá sem reikna má með kraftlausu skoti eða skoti hátt yfir markið. 

Gaman var að sjá til Mána Austmanns Hilmarssonar sem kom inn af krafti undir lokin og virkaði með mikið sjálfstraust.

Hvað gekk illa?

KA mönnum gekk illa framan af síðari hálfleik að byggja upp sóknir. Báðum liðum tókst svo ekki að láta reyna á markverðina að nokkru ráði, skotin fóru ýmist í varnarmenn eða framhjá/yfir markið. 

Jóhann Laxdal átti góða spretti í leiknum upp hægri vænginn en fæturnir voru stundum mislagðir þegar kom að fyrirgjöfunum þar sem Hólmbert og Baldur voru mættir og biðu eftir sendingunni fyrir.

Hvað gerist næst?

KA menn fá vængbrotna Víkinga heim á Akureyrarvöll á laugardaginn. Þar þurfa þeir gulu að stimpla sig inn og mæta með kassann úti þrátt fyrir grátlegt tap í dag. Almar Ormarsson kemur aftur úr leikbanni sem norðanmenn fagna. 

Eftir tvo sigra og jafntefli er KA búið að tapa tveimur leikjum í röð. Gegn ÍR í bikarnum og svo Stjörnunni í kvöld. Þeir þurfa að koma lestinni strax aftur á sporið. Raunar ætti það ekki að vera neitt áhyggjuefni miðað við frammistöðuna í kvöld eftir tapið gegn ÍR.

Stjörnumenn halda í Grafarvoginn á sunnudaginn og mæta Fjölni. Stjarnan er búið að senda skilaboð á önnur lið að þeir séu liðið sem aðrir þurfa að elta. Stjörnumenn eru taplausir og eru að skora mörk undir lok leikja sem er einkenni sterkra liða.

Stjarnan (4-3-3): Haraldur Björnsson 5 - Jóhann Laxdal 6, Brynjar Gauti Guðjónsson 6, Daníel Laxdal 7, Jósef Kristinn Jósefsson 6 - Alex Þór Hauksson 5 (79. Heiðar Ægisson), Eyjólfur Héðinsson 7*, Baldur Sigurðsson 6 - Hólmbert Aron Friðjónsson 5, Hilmar Árni Halldórsson 6, Guðjón Baldvinsson 6 (72. Máni Austmann Hilmarsson - )

KA (4-2-3-1): Srdjan Rajkovic 5 - Bjarki Þór Viðarsson 6 (64. Hrannar Björn Steingrímsson 6), Guðmann Þórisson 5,  Callum Williams 6, Ívar Örn Árnason 5 - Aleksandar Trninic 5, Archange Nkumu 6 (64. Ólafur Aron Pétursson 5) - Ásgeir Sigurgeirsson 7, Emil Sigvardsen Lyng 5, Hallgrímur Mar Steingrímsson 6 - Elfar Árni Aðalsteinsson 5 (82. Steinþór Freyr Þorsteinsson -)

*maður leiksins

Rúnar Páll Sigmundsson.vísir/pjetur
Rúnar Páll: Strákarnir í geggjuðu formi

„Þetta var stórkostlegur leikur. KA menn voru hrikalega öflugir,“ sagði sigri hrósandi Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok.

„Ég er hrikalega stoltur af drengjunum, við erum í geggjuðu formi og skorum alltaf mörk í lok leikja. Þeir fá mikið hrós fyrir drengirnir,“ sagði Rúnar.

„Við erum í betra formi en við höfum verið síðustu ár. Æfðum hrikalega vel í vetur. Okkur líður þannig að við séum í geggjuðu formi og þeir sýna það með frammistöðunni í leikjunum.“

Rúnar Páll segist alltaf hafa það á tilfinningunni að hans menn skori.

„Þetta er ekki búið fyrr en það er flautað af. Við þekkjum það frá því í fyrra þegar við töpuðum mörgum leikjum í lokin. Nú erum við að snúa þessu við sem er mjög gott.“

 

Eyjólfur í baráttunni á vellinum í dag.Vísir/Ernir
Eyjólfur: Hart á móti hörðu þar sem við höfðum betur

„Já já, ég hef oft hitt hann svona vel en það er komið svolítið síðan. Mér fannst við eiga þetta skilið,“ sagði Eyjólfur Héðinsson, hetja Stjörnumanna í leikslok.

„Mér fannst við alltaf vera með yfirhöndina.“

Mikið hefur verið rætt um hve KA menn eru líkamlega sterkir og harðir. En í dag mættu Stjörnumenn hörðu með hörðu.

„Gott betur en það. Þeir voru að væla svolítið en við vorum fastir fyrir. Fengum samt ekkert spjald, þeir fengu nokkur. Þetta var hart á móti hörðu þar sem við höfðum betur.“

Hann tók undir með Rúnari um form leikmanna.

„Ég gæti alveg haldið áfram að spila. Ég er ekki þreyttur. Þetta er fjórði leikurinn í röð þar sem við skorum á síðustu fimm sex mínútunum. Það er gríðarlegur styrkur að vita af því að við séum sterkir í lokin,“ sagði Eyjólfur.

„Það er mjög góð stemning bara í Garðabænum yfir höfuð. Það gengur vel hjá stelpunum líka. Það er langt síðan við töpuðum. Þegar það gengur svona vel þá koma stuðningsmennirnir með,“ sagði Eyjólfur og hrósaði stuðningsmönnum beggja liða í kvöld.

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA manna.Vísir/Ernir
Srdjan Tufegdzic: Púra brot á Steinþóri

„Þetta var mjög sárt. Eins og að vera kýldur í magann að fá mark á sig á 96. mínútu eftir fast leikatriði. Svekkjandi því 90 prósent af undirbúningnum fór í að verjast föstum leikatriðum,“ sagði Srdjan Tufegdzic svekktur eftir leik.

„Ég verð að koma á framfæri að mér fannst púra brot á Steinþóri hjá okkur í sókninni áður en þeir fara upp, fá horn og skora seinna markið. Hann átti að dæma,“ sagði Tufa. 

Í viðbótartíma var Steinþór Freyr að sleppa í gegn en Brynjar Gauti elti hann uppi. Pressaði hann stíft á Steinþór Freyr sem að endingu féll til jarðar. Hvor niðurstaða hefði gert hitt liðið ósátt. Stjörnumenn brunuðu upp, fengu horn og skoruðu.

„Mér fannst þetta stál í stál, leikur tveggja góðra liða sem gáfu ekkert eftir. Bæði lið vildu vinna leikinn og mjög gaman fyrir áhorfendur að sjá svona leik. En mjög svekkjandi að tapa, því við áttum það ekki skilið í dag.“

Tufa hefur ekki áhyggjur af því að tvö töp í röð fari illa með sjálfstraust sinna manna.

„Alls ekki. Ég er mjög ánægður að menn eru að virða okkur svo mikið,“ sagði Tufa og vísaði í spurningu blaðamanns sem minnti á að um toppslag í deildinni væri að ræða.

„Það kemur auðvitað fyrir að við töpum leikjum þótt við spilum vel, eins og í dag. En við höldum áfram. Sýndum aftur í dag að við erum topplið og ætlum að halda áfram að gera góða hluti í deildinni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira