Innlent

Neitar að segja upp þegar hann verður sjötugur

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sextíu og átta ára gamall kennari við MH hefur tilkynnt rektor skólans að hann þurfi að reka hann því hann vilji ekki láta af störfum fyrir aldurs sakir þegar hann verður sjötugur. Hann segir einkennilegt að fólk með þrótt og kraft sé skikkað á eftirlaun gegn vilja sínum.

Ríkisstarfsmenn þurfa að láta af störfum þegar þeir verða sjötugir. Í 33. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir: „Embættismanni skal veita lausn frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri.“ Í 2. mgr. 43. gr. segir: „Starfsmanni skal (þó) jafnan segja upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri.“

Björn Bergsson hefur kennt í alls 42 ár en við Menntaskólannn í Hamrahlíð frá 1982. Björn er orðinn 68 ára og þarf að láta af störfum og hefja töku lífeyris þegar hann verður sjötugur.

„Ég hef tilkynnt Lárusi H. Bjarnasyni rektor MH að hann verði að segja mér upp. Ástæðan fyrir því er að það er venjan að þegar fólk verður sjötíu ára skrifi það bréf til rektors og biðjist lausnar en ég er ákveðinn í því að gera það ekki. Ég er við góða heilsu og hef mjög gaman af því að kenna og það sem meira er ég nýt þess mun meira en þegar ég byrjaði. Þess vegna finnst mér það asnalegt að vera skikkaður út í kuldann þegar ég verð sjötíu ára,“ segir Björn. Hann segir það þjóðhagslega hagkvæmt að menn vinni lengur en til sjötugs því þá greiði fólk skatta. Hér má líka nefna hækkandi lífaldur þjóðarinnar.

Mjög einfalt er að breyta starfsmannalögunum til að gera starfslokin valkvæð. Þetta er hægt að gera með því að taka út orðið „skal“ og setja í staðinn orðið „má“ í þeim ákvæðum starfsmannalaga sem nefnd voru framar.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að þessi ákvæði starfsmannalaganna séu barn síns tíma. Tryggja verði sveigjanleg starfslok hjá ríki og sveitarfélögum.

„Þessi ákvæði eru barn síns tíma og þetta er úr takti við það sem við höfum verið að gera á þingi á undanförnum árum. Hér starfaði Pétursnefnd um málefni aldraðra og öryrkja og þar var ein af niðurstöðunum um að það bæri að tryggja sveigjanleg starfsflok. Það voru gerðar breytingar á almannatryggingakerfinu sem gera það að verkum að fólk getur bæði hafið töku lífeyris fyrr og síðar. Við þurfum að innleiða sveigjanleikann í aðra löggjöf. Hann hefur verið innleiddur í áföngum inn í almannatryggingalöggjöfina og núna þarf að innleiða hann í þessi lög um starfsmenn hins opinbera. Það þarf líka að eiga sér stað umræða á hinum almennna markaði. Að sveigjanleg starfslok verði hluti af öllum vinnumarkaðnum á Íslandi,“ segir Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×