Erlent

Assange ýjar að því að hann verði áfram í sendiráði Ekvador í London

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvador í London í dag.
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvador í London í dag. vísir/getty

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, flutti ávarp á svölum sendiráðs Ekvadors í London síðdegis en yfirvöld í Svíþjóð tilkynntu í dag að nauðgunarkæra gegn honum sem lögð fram árið 2010 hefði verið látin niður falla.

Assange ýjaði að því að hann verði áfram í sendiráði Ekvador í London en hann hefur verið í raun í stofufangelsi þar síðan 2012 þar sem sænsk yfirvöld höfðu gefið út handtökuskipun gegn honum vegna meintra kynferðisbrota Assange.

Fjölmiðlar og almenningur fylgdust með þegar Assange flutti ávarp sitt í dag. Hann sagði að dagurinn í dag væri mikilvægur sigur fyrir hann og þau mannréttindi sem Sameinuðu þjóðirnar hafi í heiðri.

„En það strokar þó ekki út árin sem ég hef verið í stofufangelsi án ákæru og í næstum fimm ár í þessu sendiráði án sólarljóss, sjö ár án ákæru þar sem börnin mín ólust upp án mín. Þetta er eitthvað sem ég get ekki gleymt, eitthvað sem ég get ekki fyrirgefið,“ sagði Assange.

Þá sagði hann jafnframt að þó að bardaginn væri búinn þá væri stríðið rétt að byrja en bresk yfirvöld hafa sagt að þau muni handtaka hann þrátt fyrir að búið sé að fella málið gegn honum í Svíþjóð niður. Það er vegna þess að hann kom sér undan tryggingu þegar hann fór í sendiráðið. Assange mótmælti þessum áformum breskra yfirvalda.

„Krafan um að Bretar geti handtekið mig fyrir að að sækja um hæli í máli þar sem engin ákæra liggur fyrir er einfaldlega óverjandi. Lögmenn mínir hafa sett sig í samband við bresk yfirvöld og við vonumst til að eiga samtal við þau um það hvaða leið er vænlegust til að halda áfram,“ sagði Assange og bætti því við að hann hefði ekki búist við því frá Bretum að framselja fólk án þess að búið væri að gefa út ákæru gegn þeim.

Bretar hafa ekki viljað gefa það upp hvort að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna ef hann yfirgefur ekvadoríska sendiráðið í London. Allar líkur eru á því að Assange eigi yfir höfði sér ákæru í Bandaríkjunum vegna leka á trúnaðarupplýsingum frá stofnunum á borð við CIA og bandaríska herinn.

Það verður því að teljast nokkuð ólíklegt að Assange yfirgefi sendiráð Ekvador í London í bráð en í ávarpi sínu í dag þakkaði hann ekvadorískum yfirvöldum fyrir að hafa veitt sér hæli þrátt fyrir mikinn þrýsting um að gera það ekki. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira