Innlent

Hátt settir Framsóknarmenn vilja tefla Sigmundi fram í borginni

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Alþekkt er að fyrrverandi forsætisráðherra hefur mikinn áhuga á skipulagsmálum og hefur verið gagnrýninn á þróun þeirra og framkvæmdir í miðborginni.
Alþekkt er að fyrrverandi forsætisráðherra hefur mikinn áhuga á skipulagsmálum og hefur verið gagnrýninn á þróun þeirra og framkvæmdir í miðborginni. Vísir/Daníel
Áhrifamenn innan Framsóknarflokks hafa hvatt Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þingmann flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, til að leiða lista Framsóknar og flugvallarvina í sveitarstjórnarkosningunum í maí á næsta ári. Þetta staðfestir Sigmundur Davíð í samtali við Fréttablaðið. Hann er sem stendur óbreyttur þingmaður og situr í utanríkismálanefnd.

„Það er ekkert launungarmál að málefni sveitarfélaganna og skipulagsmál skipa stóran sess í mínum huga, en þau eru líka nátengd landsmálunum og það er fjölmargt annað á sviði landsmálanna sem mér finnst mikil þörf á, og tækifæri til, að bæta,“ segir Sigmundur Davíð og bætir við að hann hafi skyldum að gegna í sínu kjördæmi og líki þingmennskan vel. „Ég geri ráð fyrir að halda mig við landsmálin þótt mér þyki málefni borgarinnar líka mjög áhugaverð og gríðarlega mikilvæg.“

Alþekkt er að Sigmundur Davíð hefur mikinn áhuga á skipulagsmálum í borginni. Hann hefur í gegnum tíðina látið sig þau mál varða, líka þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra.

Sigmundur hefur skrifað innblásna pistla um skipulagsmál og hefur verið gagnrýninn á þróun þeirra og framkvæmdir í miðborginni. Árið 2015 skrifaði hann, svo dæmi sé tekið, grein á heimasíðu sína þar sem hann sagði gamla bæinn í Reykjavík ekki hafa staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og þá frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld. Hann nefndi fyrirhugaðar framkvæmdir á Hörpureitnum og lóðum við hlið Tollstjórahússins sem dæmi um vont skipulag. Þá varð frægt þegar hann sendi frá sér jólakort sama ár, þar sem hann hafði látið teikna byggingu inn á fyrirhugaðan byggingarreit nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis í stíl Guðjóns Samúelssonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×