Íslenski boltinn

Barcelona verður aftur með æfingabúðir hér á landi í júní

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spænska stórveldið Barcelona í samvinnu við Knattspyrnuakademíu Íslands býður upp á æfingabúðir hér á landi í júní eins og í fyrra. Í ár verður strákum hins vegar boðið að vera með.

„Við ætlum að blása aftur til sóknar í ár og nú bjóðum við strákum að vera með. Áhuginn er gríðarlega mikill,“ sagði Inga Lind Karlsdóttir, ein þeirra sem kemur að námskeiðinu, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

„Barcelona setur ákveðnar reglur. Þeir vilja hafa flotta umgjörð og öruggt utanumhald. Við þurfum að hafa sjúkraþjálfara á staðnum, það þurfa að vera réttir búningar, rétt loka- og upphafsathöfn. Þeir gera kröfur um að þjálfararnir sem starfa undir þjálfurunum þeirra fái mikla menntun áður en námskeiðið hefst. Þannig að það eru allir að græða.“

Reiknað er með að allt að 900 krakkar taki þátt að þessu sinni og færri komist að en vilja. Æfingabúðirnar fyrir stráka verða á Valsvellinum 18.-22. júní og 24.-28. júní fyrir stelpur. Inga Lind segir að það sé enn möguleiki á að komast að á námskeiðið.

„Ég er með góðar fréttir. Þrátt fyrir tæknilega örðugleika við skráningu fyrir helgi, þegar skráningavefurinn hrundi sökum aðsóknar gerðist það að duglegustu foreldrarnir höfðu það af að skrá börnin sín. Þannig að þau eru sum tví- eða þrískráð. Það eru því enn laus pláss hjá okkur,“ sagði Inga Lind.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×