Innlent

Millifært beint á félagið Reisn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ákærði ásamt verjanda fyrir aðalmeðferðina í gær.
Ákærði ásamt verjanda fyrir aðalmeðferðina í gær. vísir/gva
Héraðssaksóknari fer fram á að fyrrverandi eigandi kampavínsklúbbsins sáluga Strawberries verði dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til greiðslu rúmlega 242 milljóna króna í sekt vegna skatta- og bókhaldsbrota. Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Rannsókn málsins hófst á haustmánuðum 2013 en þá lék grunur á að vændiskonur væru gerðar út á staðnum. Það mál var síðar fellt niður og eftir stóð dómsmál vegna meintra skattalagabrota.

Manninum er gefið að sök að hafa vantalið 64 milljóna króna tekjur á skattframtali sínu og vantalið 230 milljóna króna virðisaukaskattskylda veltu í rekstri Strawberries. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki hirt um að halda bókhald fyrir félagið. Í máli ákæruvaldsins kom fram að í tölunum væri ekki tekið tillit til reiðufés og því væri ekki loku fyrir það skotið að fjárhæðin væri enn hærri.

Maðurinn neitar sök og krefst því að málinu verði vísað frá dómi eða hann sýknaður sökum þess hve langan tíma rekstur málsins hefur tekið. Í máli saksóknara kom hins vegar fram að þann drátt megi að miklu leyti rekja til þess hve stopult bókhald Strawberries var.

Málið „rekið í fjölmiðlum“

Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi. Í máli hans kom fram að staðurinn hefði verið „partýklúbbur“ en aldrei vændishús. Stundum hefði fólk komið þangað og fengið að strauja kortin sín og fengið í staðinn reiðufé úr kassanum. Þeir peningar hefðu verið notaðir til að „tipsa“ og greiða fyrir vörur á staðnum. Viðskiptavinirnir hafi verið vanir að slá aðeins um sig.

„Skattskil voru víst á minni ábyrgð samkvæmt lögum en ég kann ekkert á svona mál. Ég tók bara öll gögn og kom þeim á [bókarann]. Ég man ekki hvernig þetta var eða hvaða gögn ég lét hann hafa en ég held þau hafi verið fullnægjandi,“ sagði hann meðal annars.

Þá sagðist ákærði hafa glímt við heilsubrest og minnisleysi frá því hann var hnepptur í gæsluvarðhald á rannsóknarstigi málsins. Hann sé nú öryrki að miklu leiti og megi það meðal annars rekja til óvæginnar fjölmiðlaumfjöllunar um mál hans.





Það virtist vera svo um tíma að verið væri að reka málið í gegnum fjölmiðla. Svo dögum skipti var ekkert annað í fréttum en fréttir um mig. Í hverri viku í heilt ár var eitthvað um mig í stóru fjölmiðlunum. Þar var sífellt talað um vændi og skipulagða starfsemi en það var enginn fótur fyrir því. Það mál var fellt niður.



Bókari félagsins bar vitni fyrir dóminum. Í máli hans kom fram að örðugt hefði verið að stemma bókhald félagsins af þar sem gögn og reikningar til þess voru ófullnægjandi. Útskriftir úr tölvukerfi staðarins hefðu sífellt verið í ólagi og því hefði hann verið nauðbeygður til að styðjast við munnlegar heimildir ákærða um tekjur Strawberries.

„Ég gat bókfært gjaldahliðina með fullnægjandi hætti en ekki tekjuhliðina. Það var alltaf eitthvað vesen á því,“ sagði bókarinn meðal annars. Fyrirkomulagið hefði verið þannig að ákærði eða starfsmenn hans hefðu komið til hans með pappíra í möppum eða plastpokum og látið hann hafa gögnin. Þau hefðu aldrei dugað til að bókhaldið væri rétt.

Þrír fyrrverandi viðskiptavinir staðarins mættu fyrir dóminn og báru vitni um að þeir hefðu keypt „vörur og þjónustu“ af staðnum. Greitt hefði verið fyrir þá þjónustu með millifærslu inn á persónulegan reikning ákærða eða inn á reikning félagsins Reisn ehf. Ákærði staðfesti að svo hefði verið í skýrslu sinni fyrir dómi en á rannsóknarstigi hafði hann hafnað því.

Í skýrslu ákærða kom fram að það fé hefði ekki runnið til hans heldur í „verktakagreiðslur til stelpnanna“. Þeim greiðslum var hins vegar aldrei getið í bókahaldi félagsins á nokkurn hátt.

Deilt um eignaupptöku á munum

Líkt og áður hefur komið fram neitaði maðurinn sök og fór fram á að málið yrði fellt niður. Var sú krafa studd þeim rökum að rannsókn málsins hefði verið áfátt. Meðal annars hefði honum ekki verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við rannsókn málsins auk þess að hann fékk ekki afhend þau gögn sem verið var að rannsaka. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun af þeim sökum fer hann fram á sýknu með sömu rökum.

Verði maðurinn fundinn sekur hefur ákæruvaldið farið fram á að tilgreindar eignir hans verði gerðar upptækar. Er þar um að ræða innistæður á bankabókum, söluandvirði fasteigna í hans eigu og bifreiðar. Hluti fasteignanna hefur verið seldur, á meðan rekstri málsins stóð, á uppboði að beiðni kröfuhafa ákærða. 

Kröfu um eignaupptöku er hins vegar mótmælt harðlega. Verjandi mannsins benti á að til að unnt væri að fallast á upptökuna þyrftu að vera einhver tengsl milli hinnar meintu ólögmætu auðgunar og eignanna sem um ræðir. Ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að svo sé í málinu. 

Í almennum hegningarlögum er að finna tvö ákvæði um upptöku af eignum í tengslum við brotastarfsemi. Annað þeirra er töluvert meira íþyngjandi en hitt en það kveður á um að hafi verið um skipulagða brotastarfsemi að ræða, svo sem mansal, vændi eða dreifingu á fíkniefnum, sé unnt að ganga að öðrum eigum brotamanns eða félögum í hans eigu. Í málflutningi verjanda ákærða mátti greina að hann teldi skilyrði þess ákvæðis alls ekki uppfylt í málinu.

Sú grein hefði smellpassað í því máli sem lögreglan rannsakaði í upphafi en hún á einfaldlega ekki við í þessu máli. Hér er um að ræða meint skattalagabrot en ekki skipulagða brotastarfsemi.



Benti hann meðal annars á að starfsemi Strawberries hefði verið leyfisskyld og, eins og síðar kom í ljós, undir ströngu eftirliti lögreglu. Þá hefði ákæruvaldinu ekki með nokkru móti tekist að sanna að umræddar eignir hefðu nokkuð með hitt meinta brot að gera.

Bendlaði lögreglumenn við þjófnað

Í máli ákærða kom einnig fram að á lista yfir muni sem hafa verið kyrrsettir frá haustmánuðum 2013 vanti ýmsa hluti. Rolex-úr sem voru á heimili hans hafi ekki skilað sér á lista lögreglu og enginn viti hvar þau eru niðurkomin. Sömu sögu sé að segja af tölvu, reiðufé og ýmsum öðrum munum. 

„Það réðust inn tugir lögreglumanna og rótuðu í öllu. Mér var haldið í eldhúsinu á meðan. Það var miklu meira tekið og gert upptækt en var skráð. Þeir tóku bara allt sem þá langaði í,“ sagði hann meðal annars.

Þá vildi ákærði og verjandi hans einnig meina að eitthvað gruggugt hefði verið við viðskipti Borgunar við Strawberries. Ýmsar færslur sem hefðu verið skráðar í gegnum posa fyrirtækisins hafi aldrei skilað sér inn á reikninga félagsins. Ítrekað hefðu verið gerðar athugasemdir við það á meðan rekstri málsins stóð en það aldrei rannsakað í botn.

Aðalmeðferðinni lauk sama dag og hún hófst. Dóms er að vænta í málinu á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Verjandi segir vændi ekki stundað á Strawberries

Lögmaður eiganda kampavísins-klúbbsins Strawberries segir það vera af og frá að staðurinn og starfsmenn hans haft milligöngu um vændi eða hagnast af slíkri starsfemi. Á fimmta tug lögreglumanna tók þátt í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar í gær.

Kampavínsstúlkur ekki starfsmenn

Eigandi Strawberries hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar. Lögmaður eigandans segir kampavínsstúlkur ekki vera skilgreindar sem starfsmenn staðarins.

Selskapur kvenna til sölu fyrir kampavín

Nýverið voru opnaðir tveir nýir kampavínsklúbbar í Reykjavík. Fyrir er einn slíkur í Lækjargötu, Strawberries. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins snýst starfsemin um að kaupa sér félagsskap léttklæddra kvenna með kaupum á dýru kampavíni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×