Fastir pennar

Ábyrgð kjósanda

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Seinni umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á sunnudaginn. Valið stendur milli hins óháða Emanuel Macron og þjóðernissinnans Marine Le Pen.

Líklegt er að Macron fari nokkuð örugglega með sigur af hólmi, en skoðanakannanir benda til að hann hafi um tuttugu prósentustiga forskot. En lærdómur undanfarinna missera í pólitíkinni er að ekki borgar sig að ganga út frá neinu sem vísu. Í vor var talið að aðildarsinnar í Bretlandi myndu sigra stuðningsmenn Brexit nokkuð örugglega. Sömuleiðis var talið að Hillary Clinton myndi leggja Donald Trump með ríflegum mun.

Raunin varð önnur í báðum tilvikum. Lærdómurinn er sá að fólk þarf að skila sér á kjörstað og nýta atkvæðisréttinn. Fólk getur nefnilega ekki barmað sér yfir orðnum hlut ef það hefur ekki lagt sitt af mörkum til að fá vitræna niðurstöðu.

Önnur lexía gæti verið sú að kjósa ekki breytingar, einungis breytinganna vegna. Bretar kusu Brexit yfir sig til að mótmæla ímynduðu Evrópubákni og til að gefa sitjandi forsætisráðherra á baukinn. Minna fór fyrir yfirvegaðri skoðun á því hvernig Bretlandi mynda reiða af utan Evrópusambandsins. Nú ári síðar eru þeir engu nær. Sterlingspundið hefur fallið um fimmtung gagnvart helstu myntum með tilheyrandi lífskjaraskerðingu fyrir land og þjóð.

Niðurstaðan hefði orðið önnur ef fleiri kjósendur hefðu lagt dæmið niður fyrir sér.

Kosning Trumps Bandaríkjaforseta var sama eðlis. Hann talaði í sífellu um að nauðsynlegt væri að endurreisa Bandaríkin – setja Bandaríkin í fyrsta sæti. Til þess ætlaði hann að byggja vegg, stemma stigu við straumi innflytjenda, endurskoða varnarsamstarfið í NATO, lögsækja Hillary Clinton, umbreyta heilbrigðiskerfinu og þar fram eftir götum. Í málflutningnum var ekki heil brú og ómögulegt að átta sig á hvernig hann ætlaði sér að setja Bandaríkin í forgang – enda hefur nánast ekkert gengið eftir á fyrstu hundrað dögum hans í embætti.

Sumt hefur einfaldlega reynst með öllu óraunhæft og í öðru hefur hann rekið sig á raunverulega veggi í stað þess ímyndaða sem hann ætlar að byggja. Hæst ber þar að nefna röð ósigra í dómskerfinu vegna innflytjendanna, sem hann ætlaði að stoppa. Þar eiga bandarískir dómarar hrós skilið fyrir að standa í lappirnar gagnvart yfirgangi framkvæmdavaldsins.

Marine Le Pen er af sama meiði. Hún reynir að höfða til þeirra óánægðu og illa upplýstu. Hennar helstu stefnumál bera keim af einangrunarhyggju og ótta við útlendinga.

Sama hversu mikinn leiða fólk hefur fengið á „kerfinu“, þá er lausnin ekki sú að kjósa einstaklinga eins og Trump eða Le Pen til hárra embætta. Ekki er heldur skynsamlegt að tefla efnahagnum í tvísýnu eins og Bretar gerðu með því að kjósa sig út úr Evrópusambandinu.

Breytingar geta verið nauðsynlegar. En breytingar breytinganna vegna skila einna helst ringulreið.






×