Viðskipti innlent

Stór kók í gleri snýr aftur en nú frá Svíþjóð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Coca Cola á Íslandi mun á næstunni auka innflutning á gosi á kostnað innlendrar framleiðslu.
Coca Cola á Íslandi mun á næstunni auka innflutning á gosi á kostnað innlendrar framleiðslu. vísir/getty
Íslenskir neytendur munu á næstunni geta keypt stóra kók í gleri á ný eða 330 millilítra glerflösku af hinum sívinsæla gosdrykk Coca Cola.

Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum í dag þar sem greint er frá því að Coca Cola á Íslandi muni á næstunni auka innflutning gosdrykkja hingað til lands og á móti minnka innlenda framleiðslu. Innlend framleiðsla óáfengra drykkja mun þannig fara úr 94 prósentum niður í 85 prósent en gosið sem flutt verður inn kemur frá Svíþjóð.

Sjá einnig: Íhuga að hætta að framleiða kók í dós á Íslandi

Sérstaklega verða fluttir inn gosdrykkir í smærri umbúðum, til dæmis í glerflöskum og áldósum og margir saman í kippu. Carloz Cruz forstjóri Coca Cola á Íslandi segir að með þessu sé verið að bregðast við óskum markaðarins um að geta keypt gosdrykki í stærri kippum.

Um stóra kókið í gleri sem er að koma aftur segir Cruz rannsóknir sýna að meðalneysla á gosi á veitingahúsi þegar það er drukkið með mat sé 340 millilítrar.

„Við höfum verið að bjóða upp á kók í 250 ml umbúðum í gleri, en samkvæmt þessu er það ekki nóg, en hálfs lítra flaska er of stór. Því munum við innan skamms byrja að bjóða upp á 330 ml kók í gleri,“ segir Cruz.

Coke, Coke Zero og Coke Light í stórum flöskum eru væntanlegar í búðir á næstu dögum og vikum en til að byrja með munu drykkirnir fást í þessari stærð á veitingahúsum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×