Innlent

Nýju rennibrautirnar við Sundlaug Akureyrar að smella saman

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vinna við uppsetningu er í fullum gangi.
Vinna við uppsetningu er í fullum gangi. Vísir/Auðunn
„Það er byrjað að setja þær upp. Þeir eru byrjaðir að pússla og farið að sjást þó nokkuð,“ segir Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður Sundlaugarinnar á Akureyri aðspurð um hvort vinna sé hafin við að setja upp nýjar rennibrautir við sundlaugina.

Verið er að setja upp þrjár nýjar rennibrautir í stað þeirra tveggja sem fyrir voru. Framkvæmdir hafa staðið yfir frá síðasta hausti en Akureyringar hafa ef til vill tekið eftir því á undanförnum dögum að rennibrautahlutarnir eru komnir inn á svæði sundlaugarinnar. Ljóst er að rennibrautirnar muni breyta ásýnd sundlaugarinnar en Elín segir að það sé ekki það eina sem muni breytast.

„Þetta breytir líka mikið því hvað við Akureyringar höfum upp á að bjóða í afþreyingu. Ég er alveg sannfærð um það að þetta verður mikil lyftistöng fyrir okkur,“ segir Elín en reiknað er með að Akureyringar, sem og aðrir gestir sundlaugarinnar, geti byrjað að renna sér í nýju rennibrautunum um mánaðarmót júní og júlí.

Líkt og áður segir eru rennibrautirnar alls þrjár og nefnast þær Regnboginn, Klósettskálinn og Aldan. Regnboginn verður lengsta rennibraut á Íslandi, alls 86 metrar að lengd. Klósettskálinn er 28 metra löng og Aldan níu metra löng.

Svona líta teikningar af rennibrautunum út.
Bitarnir eru ansi stórir.Vísir/Auðunn
Vísir/Auðunn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×