Innlent

Skilaboð MDE hafa skilað sér til Hæstaréttar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dómarnir sem um ræðir voru kveðnir upp á árunum 2008 til 2013.
Dómarnir sem um ræðir voru kveðnir upp á árunum 2008 til 2013. VÍSIR/GVA
Flest bendir til þess að Hæstiréttur hafi móttekið skilaboð Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) varðandi meiðyrðamál fjölmiðla og breytt nálgun sinni. Þetta segir formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ).

Í liðinni viku komst MDE að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn tjáningarfrelsi blaðamanna DV með dómi Hæstaréttar í svokölluðu Sigurplastmáli. Þetta er í sjötta sinn á fimm árum sem MDE kemst að niðurstöðu sem þessari.

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, segir að fyrir nokkrum árum hafi verið unnið að því að fella meiðyrðaákvæði úr almennum hegningar­lögum. Þverpólitísk sátt hafi ríkt um það en sú vinna hefur hingað til ekki skilað sér í lagabreytingum að nokkru leyti.

„Í gegnum tíðina hefur Hæstiréttur ekki haft skilning á þeim meginprinsippum sem MDE leggur til grundvallar. Umfjöllunin þarf að varða almannahag, um sé að ræða opinberar persónur og að umfjöllunin sé faglega unnin. Það eru mælistikurnar sem MDE setur til grundvallar en hafa ekki mætt nægilegum skilningi hér á landi,“ segir Hjálmar.

Dómarnir sem brutu gegn mannréttindum blaðamannanna féllu á árunum 2008 til 2013. Fyrsti dómur MDE í slíku máli féll árið 2012. Virðist sem svo að í síðari meiðyrðamálum hafi Hæstiréttur tekið tillit til niðurstaðna dómaranna í Strasbourg.

„Maður sér á þeim dómum sem hafa fallið nýlega í meiðyrðamálum að það hefur verið tekið öðruvísi á málunum. Skilaboðin virðast því hafa skilað sér til Hæstaréttar,“ segir Hjálmar.

Málin sex sem um ræðir

Helming málanna má rekja til dóma yfir Erlu Hlynsdóttir. Fyrsti dómur MDE tengdist umfjöllun hennar um deilur kampavínsklúbbanna sálugu Goldfinger og Strawberries. Í héraðsdómi í desember 2009 voru orð sem tengdu Viðar Má Friðfinnsson, eiganda Strawberries, við lithásku mafíuna dæmd dauð og ómerk. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar en málið ekki tekið fyrir þar sem áfrýjunarupphæðin var ekki nægilega há.

Í febrúar 2010 féllst Hæstiréttur á kröfu Helgu Haraldsdóttur, eiginkonu Gumma í Byrginu, um að ómerkja ein ummæli sem birtust í grein um kynferðisbrot eiginmanns hennar. Ómerkingu þrettán annara ummæla var hafnað. Tæpum mánuði síðar var hún dæmd fyrir fyrirsögnina „Hræddir kókaínsmyglarar“ í umfjöllun um réttarhöld yfir Rúnari Þór Róbertssyni. Rúnar var sýknaður í því máli og því þótti fyrirsögnin fela í sér aðdróttun í garð hans.

Björk Eiðsdóttir lagði ríkið árið 2012 en hún hafði verið sakfelld fyrir ummæli sem birtust í Vikunni um mál stúlkna sem unnu á Goldfinger. Björk var sýknuð í héraði en sakfelld í Hæstarétti.

Tveir dómar hafa fallið í Strassbourg það sem af er ári. Annars vegar vegna máls Steingríms Sævars Ólafssonar, Pressunni, en ummæli í greins hans um barnaníð frambjóðanda til stjórnlagaþings voru ómerkt af Hæstarétti. Að endingu var ríkið dæmt fyrir að brjóta gegn Inga Frey Vilhjálmssyni, Jóni Trausta Reynissyni og Reyni Traustasyni á DV eftir að ummæli þeirra í Sigurplast-málinu svokallaða voru ómerkt af Hæstarétti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×