Viðskipti innlent

H&M opnar í Smáralind í ágúst

Haraldur Guðmundsson skrifar
H&M mun opna þrjár verslanir hér á landi eða í Smáralind, Kringlunni og á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.
H&M mun opna þrjár verslanir hér á landi eða í Smáralind, Kringlunni og á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Nordicphotos/Gettu
Fyrsta verslun H&M á Íslandi mun opna í Smáralind í ágúst 2017. Verslunin, sem verður á tveim hæðum, verður um 3.000 fermetrar að stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sænsku fataverslanakeðjunni.

Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og Svíþjóð.
„Við erum í skýjunum yfir því að vera loksins að opna verslun á Íslandi! H&M snýst um innblástur og persónulegan stíl og því er það okkur mikill heiður að geta boðið íslenskum viðskiptavinum upp á allar okkar fatalínur. Við vitum að lengi hefur verið beðið eftir komu H&M til Íslands og við hlökkum mikið til að geta hrifið með okkur þjóðina og staðið undir væntingum” segir Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi. „Þar að auki erum við gífurlega stolt af nýráðnu samstarfsfólki okkar í H&M á Íslandi - við höfum fundið frábært teymi fyrir verslanir okkar,“ segir Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi. 

Allar fatalínur H&M verða fáanlegar í versluninni, þar á meðal dömu- og herrafatnaður, barnaföt, skór, aukahlutir, undirföt og snyrtivörur. Auk þess mun verslunin fá sérstakar línur í sölu eins og H&M Studio og Conscious Exclusive. 

„H&M opnar á Íslandi með haustlínunum. Í dömulínunni mætast götutíska og fágaður klæðskerastíll í bland við kvenlegar línur sem skapa kraftmikið en heillandi yfirbragð. Við munum sjá svipmiklar yfirhafnir, þægilega kjóla, klæðilegar peysur, fjölbreytileg sett, tilkomumikið skart og fágaða litapallettu. Herralínan er tæknileg en á sama tíma yfirveguð og er hönnunin undir áhrifum frá bæði fjallendi og borgarlífi. Í efnunum má sjá sterkar andstæður og sérstök áhersla er lögð á samruna klassískrar hönnunar og samtímatísku,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×