Veiði

Forréttindi að veiða þessa risa urriða

Karl Lúðvíksson skrifar
Greinarhöfundur með 96 sm urriða úr Þingvallavatni í gærmorgun.
Greinarhöfundur með 96 sm urriða úr Þingvallavatni í gærmorgun. Mynd: Halldór Gunnarsson

Nú stendur urriðatíminn í Þingvallavatni sem hæst og það eru margir veiðimenn sem gera sér ferð að vatninu þessa dagana til að freista þess að ná einum stórum og þar á meðal undirritaður.

Ég tek það strax fram að þetta er ekki montstatus af þessari ferð sem ég átti með vinum í gærdag upp við Þingvallavatn þar sem við köstuðum flugu á vatnið til að reyna setja í eitt af þessum tröllum.  Þetta er hugrenning varðandi svo mörg samtöl sem ég hef átt við veiðimenn, bæði innlenda og erlenda um veiðina í Þingvallavatni og þennan einstaka stofn stórfiska sem þar má finna.

Urriðinn var um tíma veiddur svo mikið að hann var nánast að hverfa úr vatninu.  Vel þekktir veiðistaðir eins og Þorsteinsvík, Ölfusvatnsárós, Villingavatnsárós, Kárastaðir og Svörtubakkar voru mikið stundaðir af fjölda veiðimanna sem drápu allan urriða sem veiddist.  Svo gerist tvennt.  Urriðanum snarfækkar og stærstu fiskarnir eru orðnir afar sjaldséðir nema þá helst í netum bænda og sumarbústaðaeigenda en ég kem að því síðar, síðan var birt rannsókn sem eindregið varar fólk við að borða urriðann úr vatninu og þessa rannsókn má finna hér.  Eftir þetta dregst aðeins úr ásókn í urriðann en það er þó ekki fyrr en þessi veiðisvæði komast undir umsjón manna sem banna allt nema flugu og setja sleppiskyldu á allan fisk sem stofninn fer að vaxa aftur ásamt frábæru ræktunar- og rannsóknarstarfi Jóhannes Sturlusonar.

Í dag eru þetta eftirsótt veiðisvæði, stórfiskum hefur fjölgað og erlendir veiðimenn vilja ólmir komast hingað til að eiga við þessa risa og gefa þeim síðan frelsi aftur í vatnið svo þeir geti haldið áfram að auka við kyn sitt.  Þessir veiðimenn þekkja flestir af raun það að hafa misst frábær veiðisvæði vegna ofveiði og mengunar og skilja þess vegna ekki af hverju allir Íslendingar leggja ekki sitt á vogarskálarnar til þess að vernda þennan stofn og þð einstaka lífríki sem í Þingvallavatni má finna. Þeim er fyrirmunað að skilja af hverju það eru ennþá leyfðar netaveiðar í vatninu og það tekur undirritaður undir.  Það er alveg sama hvað lögin segja í dag, lögum er hægt að breyta og þar þarf eingöngu vilja til að breyta.

Rökin fyrir því að það sé vitleysa að breyta því að bændur fái að leggja net og veiða í soðið "af því bara" eða vegna þess að svona hafi þetta alltaf verið og sé einhver hefð eiga ekki við og lýsa hugsun og viðleitni sem á ekkert skyld við það hugarfar sem á að gilda um þjóðgarðinn á Þingvöllum að það sé friðland og náttúra sem beri að vernda.  Netin hirða nefnilega ekki bara bleikju heldur líka urriða og víða er mikið af honum tekin í net og seldur.  Já SELDUR!  Afurð sem varað hefur verið við neyslu á er seldur á markaði, selt í reyk, á veitingastaði og það án athugasemda frá t.d. Heilbrigðiseftirliti.  Vita kaupendur af því að þeir eru að kaupa kvikasilfursmengaðann urriða eða er þeim alveg sama?  Vita neytendur af því að urriðinn sem þeir kaupa er að mati Matis varasamur til manneldis?

Það má ekki skilja það sem svo að ég sé á móti netaveiði, alls ekki, ég er heldur ekki á móti því að veiða sér í soðið og hirða einhvern afla enda geri ég það sjálfur.  Ég t.d. er duglegur við vatnaveiðina þegar færi gefst og hirði alltaf slatta sem við bæði eldum og setjum í reyk.  Eins höfum við í minni fjölskyldu haft það að reglu að borða úr frystikistunni þann afla sem við hirðum og pössum alltaf uppá það að kistan skal vera tóm 1. maí, allt þarf að vera búið að borða og nýta fyrir þann tíma  Það er nefnilega komið ágætis jafnvægi á það sem við hirðum og borðum svo við drepum enga bráð að óþörfu.  Ég vill nefnilega ganga þannig um vötn og ár landsins að börnin mín og vonandi barnabörn líka fái að njóta þeirra augnablika sem verða aðeins til í veiði, þegar stöngin bognar og fiskur kemur á land, gleðin sem það færir veiðimanni að koma heim með hóflegan afla, að sleppa stórum fiski og fiskum sem þarf að vernda sbr. urriðann í Þingvallavatni og stórlaxana í ánum.  Erum við ekki sammála um að ganga vel um þessa auðlind sem landið hefur gefið okkur?

Svona í lokin verð ég að láta montið fylgja.  Fiskurinn á myndinni er 96 sm urriði sem tók Black Ghost Zonker í gærmorgun við Svörtukletta í Þingvallavatni og er stærsti fiskur sem ég hef tekið á flugu.  Honum var aldrei haldið lengur en 5-10 sekúndur upp úr vatninu áður en honum var sleppt aftur og synti hann heill heilsu í burtu að lokinni viðureign og tekur líklega fluguna hjá örðum veiðimanni von bráðar.  Það hefði hann ekki gert frosinn í frystikistu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira