Umfjöllun, einkunnir og viðtöl: Fjölnir - Breiðablik 1-0 | Fyrsti sigur Fjölnismanna

Kristinn Páll Teitsson á Extra-vellinum skrifar
Þórir Guðjónsson og félagar eru komnir með fyrsta sigur sumarsins.
Þórir Guðjónsson og félagar eru komnir með fyrsta sigur sumarsins. vísir/eyþór
Fjölnir bar sigurorð af Breiðabliki og vann fyrsta leik sinn í sumar á heimavelli 1-0, í 2. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld en Blikar eru því áfram án stiga.

Eina mark leiksins skoraði Igor Jugovic á 62. mínútu með skoti sem virtist fara af Hans Viktori Guðmundssyni og breytti það algjörlega stefnu boltans sem gaf Gunnleifi í marki Blika engan möguleika á að verja skotið.

Fjölnismenn eru því komnir með fjögur stig og farnir af stað í sumar eftir að hafa haldið hreinu í fyrstu tveimur umferðunum en Blikar eru enn stigalausir og bitlausir í sóknarleiknum.

Af hverju vann Fjölnir?

Í jöfnum leik þar sem fátt var um færi var það Fjölnir sem hafði heppnina með sér í einni sóknarlotu og fékk mark eftir skot Igors. Gunnleifur var farinn í hornið, eflaust með skotið á hreinu en átti enga möguleika eftir breytinguna.

Að sama skapi varði Þórður Ingason glæsilega á 92. mínútu frá fyrrum Fjölnismanninum Martin Lund Pedersen og tryggði um leið sigurinn.

Í raun hefði jafntefli verið sanngjörn úrslit miðað við þau færi sem liðin sköpuðu sér í kvöld þar sem markverðirnir höfðu það lengst af bara nokkuð náðugt.

Hverjir stóðu upp úr?

Miðverðirnir tveir hjá Fjölnismönnum, Ivica Dzolan og Hans Viktor sem gæti verið skráður fyrir sigurmarkinu, stóðust vel áhlaup Blika og klipptu Hrvoje Tokic úr leikum á löngum stundum.

Þar fyrir framan var Igor Dzolan öflugur sem sópur á miðjunni og gerði hann Blikum erfitt í sóknaratlotum sínum.

Hjá Blikum var Davíð Kristján Ólafsson hættulegur framan af og sköpuðu fyrirgjafir hans í fyrri hálfleiknum usla í vítateig Fjölnismanna en það dróg af honum eftir því sem leið á leikinn.

Hvað gekk illa?

Framherjar beggja liða, Þórir Guðjónsson og Tokic, vilja eflaust gleyma þessum leik en báðir fengu þeir litla þjónustu og áttu lítið í öflug hafsentapör andstæðinganna.

Hvað gerist næst?

Blikar eiga framundan leik á heimavelli gegn Stjörnunni sem er einfaldlega orðinn leikur sem þeir verða að taka þrjú stig í.

Kópavogsmenn eru stigalausir eftir tvær umferðir og pressan á Arnari Grétarssyni á aðeins eftir að aukast ef sigrarnir fara ekki að koma á næstu vikum.

Fjölnismenn verða fyrsta liðið sem ferðast norður en þar mæta þeir liði KA sem sótti gott stig í Kaplakrikann fyrr í dag og hafa sýnt frábæra takta í upphafi umferð.

Arnar: Gerðum nóg til að skora nokkur mörk„Við ætluðum að koma hingað og sækja stig, spilamennskan var aðeins betri en þetta var samt ekki nægilega gott,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Blika, hundsvekktur að leikslokum.

Arnar var ekki sammála því að sóknarleikur Blika hefði verið full þunglamalegur í kvöld.

„Mér fannst við gera nóg til að skora nokkur mörk í dag en það er nú einu sinni þannig að þú þarft að koma boltanum í netið, það dugar ekki að komast bara í færin,“ sagði Arnar og bætti við:

„Mér fannst liðið þó ekki skapa nægilega mörk færi, það vantaði það að menn spili svolítið frjálst og það virtist vera svolítið stress í mannskapnum. Það eina í stöðunni er bara að standa saman og sækja þrjú stig í næsta leik.“

Blikar eru því stigalausir eftir tvær umferðir.

„Þú ferð í alla leiki til að taka þrjú stig en auðvitað þegar þú byrjar mótið svona þá eykst pressan, þannig eru hlutirnir í fótboltanum. Við setjum pressu á okkur og við einfaldlega verðum að taka stigin þrjú.“

Ágúst: Vildum reyna að þvinga þá í langa bolta„Þetta var frábært, ég er ánægður með sigurinn og strákarnir unnu svo sannarlega fyrir þessum stigum,“ sagði Ágúst Gylfason, léttur í spori, eftir sigurinn í kvöld.

Ágúst tók undir að liðin hefðu spilað varfærnislega í fyrri hálfleik.

„Fyrri hálfleikurinn var svolítið taktískur, lítið um sóknarleik og bæði lið voru að halda boltanum og gáfu fá færi á sér. Það kom meiri hraði í seinni hálfleikinn og við náðum að klára þetta.“

Þetta var annar leikurinn í röð sem Fjölnismenn halda hreinu.

„Það er gríðarlega jákvætt að ná að halda aftur hreinu, þetta er bara stigasöfnun í upphafi móts og strákarnir gerðu vel að landa þessum sigri.“

Ágúst lagði leikinn vel upp og lokaði vel á spilið hjá Blikum.

„Breiðablik spilar eftir ákveðinni taktík sem er að halda boltanum niðri og hefur gert það lengi, við vildum reyna að ýta þeim í langa bolta og okkur gekk vel að verjast þeim. Við vörðumst vel en svo gerir Þórður vel og lendir þessu með flottri markvörslu hérna undir lokin.“

Gunnleifur: Sýndum miklu meiri baráttu„Ég myndi ekki segja það, við sýndum miklu meiri baráttu í dag heldur en nokkur tímann í síðasta leik,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Blika, aðspurður hvort það væri krísa í Kópavogi eftir 0-1 tap gegn Fjölni í kvöld.

„Við sýndum miklu meiri vilja heldur en í fyrstu umferðinni og það er strax framför eftir það sem við buðum uppá á heimavelli. “

Gunnleifur var væntanlega hundsvekktur með sigurmark Fjölnis.

„Þetta var algjör heppni hvernig þetta breytir um stefnu en ég held að þeir kvarti ekkert. Ég hefði ekkert kvartað ef við hefðum unnið leikinn á marki eins og þessu.“

Fjölnir 4-2-3-1: Þórður Ingason 6, Mees Junior Siers 6, Hans Viktor Guðmundsson 7, Ivica Dzolan 8, Mario Tadejevic 7 - Igor Taskovic 4 (57. Marcus Solberg 4), Igor Jugovic 7, Gunnar Már Guðmundsson 5 (57. Ægir Jarl Jónasson 6) - Ingimundur Níels Óskarsson 6, Birnir Snær Ingason 7, Þórir Guðjónsson 4 (89. Anton Freyr Ársælsson).

Breiðablik 4-2-3-1: Gunnleifur Vignir Gunnleifsson 5 - Guðmundur Friðriksson 6, Viktor Örn Margeirsson 7, Damir Muminovic 7, Davíð Kristján Ólafsson 7 (89. Sólon Breki Leifsson) - Andri Rafn Yeoman 7, Gísli Eyjólfsson 6 (77. Willum Þór Willumsson), Arnþór Ari Atlason 3 (63. Aron Bjarnason 6) - Höskuldur Gunnlaugsson 6, Martin Lund Pedersen 4, Hrvoje Tokic 3.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira