Innlent

Segir einkastofur ógna öryggi sjúklinga

Birgir Jakobsson, landlæknir
Birgir Jakobsson, landlæknir vísir/stefán
Birgir Jakobsson landlæknir segir þróun íslensks heilbrigðiskerfis síðustu árin ógna öryggi sjúklinga. Stóraukin einkastofustarfsemi sérfræðilækna skapi þá ógn.

„Við erum með kerfi sem gerir það að verkum að sérfræðingar og læknar dragast frá Landspítala í stofu­praxís í of miklum mæli að mínu mati sem þýðir að sérfræðingar verja of litlum tíma á LSH. Þar með er öryggi sjúklinga stofnað í hættu,“ segir Birgir.

Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála hafa aukist um 40 prósent til einkageirans en á sama tíma hefur orðið raunlækkun á framlögum í opinbera heilbrigðisþjónustu. Til að mynda hefur Landspítalinn gefið það út að mikla fjármuni vanti í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að standa undir þeirri þjónustu sem sjúkrahúsið þarf að sinna á næstu árum.

„Ég bendi á að yfir helmingur sérfræðilækna á LSH er einnig í einhvers konar einkastarfsemi. Það er mjög óeðlilegt frá sjónarhorni sjúkrahússins og sjúklinga,“ segir Birgir. „Öryggi þeirra er í hættu vegna þess að á meðan sérfræðingar eru á stofu eru þeir ekki að sinna veikustu sjúklingum kerfisins sem liggja á spítala. Þá eru það unglæknar eða kandídatar sem halda uppi þeirri starfsemi auk hjúkrunarfræðinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×