Handbolti

Akureyrarliðið ekki enn búið að skrá sig til leiks og HSÍ framlengdi frestinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Akureyrarliðið hefur spilað í efstu deild frá 2006 en nú verður breyting á því.
Akureyrarliðið hefur spilað í efstu deild frá 2006 en nú verður breyting á því. Vísir/Andri Marinó
Mikil óvissa er uppi um hvort að Akureyrarliðin KA og Þór haldi áfram samstarfi sínu í handboltanum næsta vetur og þessi óvissa hefur haft þau áhrif að Handknattleiksamband Íslands hefur framlengt frestinn til að skrá sig til keppni á Íslandsmótinu 2017-18.

Skráningarfrestur til að skrá lið til leiks átti að renna út í dag, 9.maí, en nú hefur fresturinn verið framlengdur til 15.maí næstkomandi.

Skýring HSÍ á þessari frestun er sú að óvissa ríki um samstarf KA og Þórs. Akureyska fréttasíðan Kaffið.is segir að þetta hafi komið fram í fréttatilkynningu frá Handknattleikssambandi Íslands til aðildarfélaga sinna sem send var út í gær.

Handknattleiksdeild KA skipaði nýja stjórn á aukaaðalfundi handknattleiksdeildarinnar í fyrrakvöld og eftir því sem Kaffið kemst næst ríkir einhugur innan þeirrar stjórnar um að slíta samstarfi við Þór.

Akureyrarliðið féll úr Olís-deild karla í vor en liðið hefur verið til síðan að KA og Þór sameinuðust árið 2006. Tímabilið 2017-18 verður því fyrsta tímabilið frá 1984-1985 þar sem ekkert félag frá Akureyri verður í efstu deild.

Veturinn 1984-1985 léku bæði KA og Þór í b-deildinni sem þá hét 2. deild. Eins og staðan er í dag eru talsverðar líkur á því að bæði liðin spili í 1. deildinni á komandi tímabili. Þetta mun væntanlega skýrast seinna í vikunni og örugglega fyrir 15. Maí þegar endanlegur frestur til að skrá lið til leiks rennur út hjá HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×