Enski boltinn

Chelsea færist nær titlinum | Man City lenti tvisvar undir á Riverside | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea steig stórt skref í áttina að Englandsmeistaratitlinum með 0-3 útisigri á Everton í dag.

Mörkin komu öll á 20 mínútna kafla í seinni hálfleik. Pedro kom Chelsea yfir á 66. mínútu með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig.

Á 79. mínútu skoraði Gary Cahill annað mark Chelsea og sitt sjötta á tímabilinu. Það var svo varamaðurinn Willian sem skoraði þriðja og síðasta mark Chelsea á 86. mínútu. Lokatölur 0-3, Chelsea í vil.

Chelsea er nú með sjö stiga forskot á Tottenham sem mætir Arsenal klukkan 15:30. Everton er í 7. sætinu.

Manchester City fór illa að ráði sínu gegn Middlesbrough á Riverside. Lokatölur 2-2.

Álvaro Negredo kom Boro yfir á 38. mínútu þegar hann skoraði gegn sínum gömlu félögum.

Sergio Agüero jafnaði metin úr umdeildri vítaspyrnu á 69. mínútu en átta mínútum síðar kom Calum Chambers Boro aftur yfir.

Það var svo Gabriel Jesus sem jafnaði metin í 2-2 á 85. mínútu og þar við sat.

City er í 4. sæti deildarinnar en Boro í því nítjánda og næstneðsta, sex stigum frá öruggu sæti.

Middlesbrough 2 - 2 Manchester City
Everton 0 - 3 Chelsea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×