Erlent

Bandaríkin íhugi „fyrirbyggjandi árás“ á Norður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
John McCain er formaður herþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.
John McCain er formaður herþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Donalds Trump ætti að íhuga að grípa til „fyrirbyggjandi árásar“ á Norður-Kóreu telji hún að þarlend stjórnvöld geti skotið kjarnorkusprengju með eldflaug, að mati Johns McCain, öldungadeildarþingsmanns Repúblikanaflokksins og fyrrverandi forsetaframbjóðanda hans.

„Ég held að við verðum að íhuga þann möguleika sem allra síðasta kost og af ýmsum ástæðum,“ sagði McCain í viðtali við CNN í dag. Það væri „flónska“ að afskrifa hernaðaraðgerðir.

Spenna á Kóreuskaga hefur vaxið undanfarið eftir ítrekaðar eldflaugatilraunir stjórnvalda í Pyongyang og harðnanadi tóni bandarískra stjórnvalda undir stjórn Trump.

McCain, sem er formaður herþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, sagðist ekki halda að Trump væri að íhuga fyrirbyggjandi árás á Norður-Kóreu og lýsti þeirri von sinni að kínversk stjórnvöld kæmu vitinu fyrir Kim Jong-un, að því er kemur fram í frétt Politico af viðtalinu.

Frans páfi hvatti í dag til stillingar og alþjóðlegra viðræðna til að létta á spennunni á milli Norður-Kóreumanna og Bandaríkjamanna. Sagðist hann óttast að ástandið gæti leitt til hræðilegs stríðs sem gæti þurrkað út stóran hluta mannkynsins.


Tengdar fréttir

Trump ekki kátur með eldflaugatilraunir Norður-Kóreu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ekki sáttur við eldflaugatilraun Norður-Kóreu sem gerð var í gærkvöldi. Hann segir að með tilrauninni hafi Norður-Kórea vanvirt Kína, það sé slæmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×