Skoðun

Dagsbirta í byggingum

Ásta Logadóttir skrifar
Það kannast líklega flestir á Íslandi við unaðinn sem fylgir því að sólin fer hærra á loft og dagsljósið dvelur lengur við yfir daginn á þessum árstíma. Við sem búum á svo norðlægum slóðum þekkjum þessa tilfinningu, veturinn er svo þungur og dimmur. Það er misjafnt hversu mikil áhrif þetta mikla myrkur hefur á okkur því öll erum við ólík en 63 til 66 gráður norðlæg breiddargráða hefur í för með sér miklar sveiflur í dagsljósi. Næstu þrjá mánuðina mun daginn lengja um um það bil 6 mínútur á dag og það er bjart fram undan.

Arkitektarnir okkar leggja sig fram við að tryggja aðgengi dagsbirtu inn í byggingarnar okkar á Íslandi. Þar er spáð í notkun og stærð rýma, stærð og staðsetningu glugga, umhverfis og stöðu byggingar gagnvart sólargangi. Hingað til hefur þetta gengið mjög vel og ekki skemmt fyrir að landsvæði á Íslandi hefur ekki verið af skornum skammti, byggð hefur dreifst vel og dagsbirtu því almennt ekki skort í íslenskum byggingum. Í dag er hins vegar sama þróun og í nágrannalöndum okkar að byggðin er að þéttast og byggingar verða þar af leiðandi hærri og liggja þéttar upp að hvor annarri. Þá ber að vera sérstaklega vakandi yfir aðgengi dagsbirtu í byggingar, ekki bara þessar nýju byggingar heldur koma þær sem fyrir eru nú til með að liggja í skugga þessara nýju bygginga.

Bretarnir leystu þetta á sínum tíma með því að setja fram lög um „rétt til ljóssins“ (e. right to light). Þar gengur „réttur fólks til dagsbirtunnar“ kaupum og sölum eða hefur þær afleiðingar að nýjar byggingar fá ekki að rísa á svæðum þar sem þær mundu skyggja á núverandi byggingar. Á Norðurlöndunum sem og hér hefur verið hefð fyrir því að innleiða í byggingareglugerðir ákveðnar þumalputtareglur sem eiga að tryggja lágmarks dagsbirtu í byggingum. Á Íslandi gildir að samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis eigi að vera tíu prósent af gólffleti, eða að lágmarki einn fermetri.

Í nágrannalöndum okkar gilda þessar þumalputtareglur líka fyrir atvinnuhúsnæði og þær tryggja meira að segja aðgengi dagsbirtu að gluggunum og lágmarks aðgengi gegnum gluggann. Búast má við því að þessar þumalputtareglur muni á næstu árum víkja fyrir enn nákvæmari aðferðum sem taka mið af hnattstöðu og umhverfi hverrar byggingar.

Byggingarreglugerðin okkar tryggir ekki aðgengi dagsbirtu í byggingarnar okkar. Ábyrgðin er okkar að stuðla að aðgengi dagsbirtu og þar með vellíðan íbúa landsins.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×