Innlent

Forstjóri Landspítalans ósáttur við að Garðabær fái Vífilsstaði

Sveinn Arnarsson skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. mynd/landspítalinn

Forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss er afar ósáttur við þær málalyktir að land Vífilsstaða skyldi selt Garðabæ.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra undirrituðu samning um söluna í golfskála GKG í Garðabæ í gær.

Landspítalinn hafði yfirumsjón með landinu í rúma öld áður en fjármálaráðuneytið, undir stjórn Bjarna Benediktssonar, ákvað að taka lóðina til sín í desember 2014.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gagnrýndi þá ákvörðun harðlega í bréfi dagsettu á Þorláksmessu árið 2014.

„Landspítali mótmælir harðlega að ráðuneytið flytji einhliða og án umræðu umsjón með landinu frá spítalanum. Það vakna upp spurningar hvers vegna beitt er svo sértækri aðgerð til þess að skerða land Landspítala á Vífilsstöðum,“ segir í bréfi Páls Matthíassonar.

Aukinheldur óskar forstjóri LSH eftir samræðum: „Landspítali vill minna á að hann er enn með starfsemi á landinu.

Vífilsstaðaspítali er í fullum rekstri. Það er krafa Landspítala að ráðuneytið afturkalli ákvörðun sína um Vífilsstaðalandið og sett verði af stað vinna við að móta stefnu til langrar framtíðar um notkun lands Vífilsstaða fyrir heilbrigðisþjónustu.

„Athugasemdir Landspítala sneru að því að þarna var um að ræða land sem horft var til fyrir uppbyggingu spítalans til framtíðar,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss. „Um þetta greindi okkur á við fjármálaráðuneytið sem ákvað að leysa til sín landið og ráðstafa með öðum hætti.“

Fyrirhugað er að efna til samkeppni um skipulag á svæðinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira