Innlent

Telja starfsmann hafa valdið slysinu með ógætilegum akstri

Sveinn Arnarsson skrifar
Slysið átti sér stað kvöldið 22. mars. Karlmanni hefur verið sagt upp vegna málsins.
Slysið átti sér stað kvöldið 22. mars. Karlmanni hefur verið sagt upp vegna málsins. vísir/vilhelm

Öryggisbúnaður krana í kerskála Norðuráls sló út og varð óvirkur þegar tveir kranar rákust saman þann 22. mars síðastliðinn með þeim afleiðingum að kona mjaðmagrindarbrotnaði og hlaut fleiri alvarlega áverka. Karlmanni hefur verið vikið frá störfum en Norðurál telur hann hafa keyrt kranann óvarlega og því hafi slysið átt sér stað.

Vinnueftirlitið hefur tekið kranann út árlega og aldrei gert athugasemd við hann. Hins vegar virkar kraninn ekki þegar hann er keyrður í efstu hraðastillingu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er óheimilt samkvæmt reglum Norðuráls að aka krönum á þeirri hraðastillingu og var það ástæða þess að manninum var sagt upp störfum.

Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins. vísir/stefán

Vinnueftirlitið telur málið þannig vaxið að draga þurfi lærdóm af því. „Það er margt sem bendir til þess að þessi búnaður virki ekki eins og hann á að virka undir vissum kringumstæðum,“ segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins.

„Búnaðurinn er prófaður við vissar aðstæður og þar stenst hann prófanir. Hins vegar virðist öryggisbúnaður slá út þegar krananum er ekið hratt. Það er ekki hægt við eftirlit að láta kranann bakka á fullum hraða og gá hvort hann stöðvist ekki örugglega þegar hann mætir öðrum krana. Við þurfum fyrst og fremst að draga lærdóm af þessu máli og kanna þetta í þaula.“

Sólveig Bergmann

Sólveig Bergmann, upplýsingafulltrúi Norðuráls, segir allt gert til að svona slys endurtaki sig ekki. Hún segist ekki geta rætt mál einstakra starfsmanna við blaðamenn. „Annar brúkraninn var kyrrstæður og var hinum brúkrananum ekið á hann. Vinnueftirlitið hefur prófað umræddan brúkrana árlega og ekki gert athugasemdir við virkni eða búnað hans,“ segir Sólveig.

„Í kjölfar slyssins var kraninn tekinn úr notkun og hefur árekstrarvörn hans verið breytt samkvæmt nýjum tilmælum Vinnueftirlitsins. Málið er litið alvarlegum augum og verður allt gert til að koma í veg fyrir að atburður sem þessi endurtaki sig,“ bætir Sólveig við. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira