Innlent

Kuldaboli bítur kinn á sumardaginn fyrsta

Benedikt Bóas skrifar
Sumarið gæti heilsað upp á landsmenn með éljum og kulda.
Sumarið gæti heilsað upp á landsmenn með éljum og kulda. vísir/ernir
„Ég myndi alveg hafa húfu,“ segir Arnór Tumi Jóhannsson veðurfræðingur um hvernig sumarið heilsar landsmönnum. Hann segir að lægð sé að koma upp að landinu með vestlægum áttum sem muni snúast í norðanátt. Munu él fylgja þessu veðri. Vetur og sumar munu þó ekki frjósa saman en samkvæmt þjóðtrúnni boðar það gott sumar.

„Hitinn verður nálægt frostmarki og það gæti frosið á Vestfjörðum og í innsveitum norðanlands. En mér sýnist að það muni ekki frjósa sunnanlands og í Reykjavík.“

Sumardagurinn fyrsti verður haldinn hátíðlegur víða um land. Í hverfum Reykjavíkur verður deginum fagnað meðal annars með lúðrablæstri, skrúðgöngum og hoppu­kastölum. Þá verður dagskrá frá frístundamiðstöðvum og skátafélögum og Dr. Bæk mun gera hjól borgarbúa klár fyrir sumarið í Árbæ, Vesturbæ og á Klambratúni.

Skátafélagið Kóparnir stendur fyrir dagskrá í Kópavogi. Hún hefst með skrúðgöngu frá Digraneskirkju og endar í Fífunni þar sem verða skemmtiatriði, hoppukastalar og fleira. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×