Innlent

Góður árangur blaðnámsaðgerða

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Af Landspítalanum.
Af Landspítalanum. vísir/vilhelm
Skammtímaárangur blaðnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi er afar góður. Þetta kemur fram í grein sem Guðrún Nína Óskarsdóttir, sérnámslæknir í lungnalækningum og doktorsnemi, skrifar í tímaritið Acta Oncologica.

„Greinin fjallar um árangur og lifun sjúklinga sem gengist hafa undir svokallaða blaðnámsaðgerð við lungnakrabbameini á Íslandi á árunum 1991 til 2014. Um er að ræða aðgerð þar sem hluti af lunga, svokallað lungnablað, er fjarlægt í læknandi tilgangi,“ segir Guðrún Nína.

Guðrún Nína Óskarsdóttir
Hún segir að þar sem rannsóknin nái til allra sjúklinga heillar þjóðar séu upplýsingarnar mjög mikilvægar. Árangurinn hafi verið góður og nánast allir sjúklingar hafi verið á lífi þrjátíu dögum frá aðgerð. Langtímalifun reynist svipuð og erlendis en jákvætt sé að hún hafi batnað á síðustu árum.

Þá segir Guðrún Nína að meirihluti sjúklinga sem greinast með lungnakrabbamein á Íslandi í dag sé kvenkyns. „Sem er sérstakt því nánast alls staðar í heiminum er lungnakrabbamein algengara hjá körlum,“ segir Guðrún Nína.

Ástæðuna telur hún sennilegast vera þá að íslenskar konur hafi reykt meira upp úr seinni heimsstyrjöldinni en stallsystur þeirra annars staðar á Norðurlöndum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×