Erlent

Milljarðamæringur sem sakar kínversk stjórnvöld um spillingu eftirlýstur

Kjartan Kjartansson skrifar
Alþýðuhöllin í Kína. Milljarðamæringur fullyrðir að spilling eigi sér stað í æðstu röðum Kommúnistaflokksins.
Alþýðuhöllin í Kína. Milljarðamæringur fullyrðir að spilling eigi sér stað í æðstu röðum Kommúnistaflokksins. Vísir/EPA
Kínversk yfirvöld hafa látið gefa út alþjóðlega handtökuskipun á hendur milljarðarmæringi sem hefur hótað því að afhjúpa spillingu æðstu ráðamanna Kommúnistaflokksins. Milljarðamæringurinn segist fórnarlamb nornaveiða.

Guo Wengui er kínverskur athafnamaður sem er þekktur fyrir gljálífi í heimalandinu. Hann hefur sakað ættingja háttsettra meðlima Kommúnistaflokksins um að hagnast á tengslum sínum, að því er segir í frétt The Guardian.

Nú saka kínversk yfirvöld Guo hins vegar um að hafa greitt fyrrverandi yfirmanni kínversku leyniþjónustunnar milljónir í múturgreiðslur. Sá var sviptur embætti í herferð Xi Jinping forseta Kína gegn spillingu. Interpol hefur gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Guo að beiðni kínverskra yfirvalda.

Guo hafnar þessum ásökunum algerlega og segist fórnarlamb pólitískra nornaveiða kínverskra stjórnvalda. Sakar hann stjórnvöld í Beijing um að reyna að þagga niður í honum með ógnunum.

„Ef það er engin spilling í Kína væri ríkisstjórnin ekki hrædd við að ég segði sannleikann,“ segir milljarðamæringurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×