Erlent

Hóta því að gera Bandaríkin að „rjúkandi rústum“

Kjartan Kjartansson skrifar
Eftirlíking af eldflaug í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Myndin er úr safni.
Eftirlíking af eldflaug í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Norður-kóresk stjórnvöld hóta „ofuröflugri fyrirbyggjandi árás“ gegn Bandaríkjamönnum eftir að utanríkisráðherra þeirra síðarnefndu sagði þarlend stjórnvöld kanna leiðir til að þrýsta á Norður-Kóreumenn vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

Ríkisdagblaðið Rodong Sinmun sparaði ekki stóru orðin í garð Bandaríkjanna samkvæmt frétt Reuters.

„Verði ofuröflug fyrirbyggjandi árás okkar gerð mun hún ekki aðeins þurrka strax út bandaríska heimsvaldainnrásarherinn í Suður-Kóreu og nágrenni hans heldur einnig meginland Bandaríkjanna og gera það að rjúkandi rústum,“ fullyrti blaðið sem er opinbert dagblað norður-kóreska Verkamannaflokksins.

Tónn bandarískra ráðamanna í garð Norður-Kóreumanna hefur harðnað í kjölfar eldflaugabrölts þeirra undanfarið. Norðanmenn hafa unnið að þróun langdrægra eldflauga. Gerðu þeir misheppnaða tilraun til að skjóta einni slíkri á loft um síðustu helgi eftir mikla hersýningu þar sem fjöldi eldflauga var sýndur.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur meðal annars sagt að tími „hernaðarlegrar þolinmæði“ með Norður-Kóreu sé liðinn.

Utanríkisráðherrann Rex Tillerson sagði blaðamönnum í Washington í gær að hann væri að fara yfir stöðu Norður-Kóreu og hvernig hægt væri að setja þrýsting á þarlend stjórnvöld.


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína ræða möguleg viðbrögð vegna Norður-Kóreu

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, segir að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu sammála um að ástandið á Kóreuskaga geti ekki haldið áfram óbreytt. Hann segir löndin vera að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við eldflauga og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira