Erlent

Hóta því að gera Bandaríkin að „rjúkandi rústum“

Kjartan Kjartansson skrifar
Eftirlíking af eldflaug í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Myndin er úr safni.
Eftirlíking af eldflaug í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Norður-kóresk stjórnvöld hóta „ofuröflugri fyrirbyggjandi árás“ gegn Bandaríkjamönnum eftir að utanríkisráðherra þeirra síðarnefndu sagði þarlend stjórnvöld kanna leiðir til að þrýsta á Norður-Kóreumenn vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

Ríkisdagblaðið Rodong Sinmun sparaði ekki stóru orðin í garð Bandaríkjanna samkvæmt frétt Reuters.

„Verði ofuröflug fyrirbyggjandi árás okkar gerð mun hún ekki aðeins þurrka strax út bandaríska heimsvaldainnrásarherinn í Suður-Kóreu og nágrenni hans heldur einnig meginland Bandaríkjanna og gera það að rjúkandi rústum,“ fullyrti blaðið sem er opinbert dagblað norður-kóreska Verkamannaflokksins.

Tónn bandarískra ráðamanna í garð Norður-Kóreumanna hefur harðnað í kjölfar eldflaugabrölts þeirra undanfarið. Norðanmenn hafa unnið að þróun langdrægra eldflauga. Gerðu þeir misheppnaða tilraun til að skjóta einni slíkri á loft um síðustu helgi eftir mikla hersýningu þar sem fjöldi eldflauga var sýndur.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur meðal annars sagt að tími „hernaðarlegrar þolinmæði“ með Norður-Kóreu sé liðinn.

Utanríkisráðherrann Rex Tillerson sagði blaðamönnum í Washington í gær að hann væri að fara yfir stöðu Norður-Kóreu og hvernig hægt væri að setja þrýsting á þarlend stjórnvöld.


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína ræða möguleg viðbrögð vegna Norður-Kóreu

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, segir að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu sammála um að ástandið á Kóreuskaga geti ekki haldið áfram óbreytt. Hann segir löndin vera að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við eldflauga og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×