Erlent

Flogalyf talið hafa skaðað þúsundir barna

Kjartan Kjartansson skrifar
Lyfið var meðal annars selt undir markaðsheitinu Depakine.
Lyfið var meðal annars selt undir markaðsheitinu Depakine. Vísir/Getty
Ný frönsk bráðabirgðarannsókn bendir til þess að lyf sem var gefið ófrískum konum gegn flogaveiki og geðhvörfum hafi valdið alvarlegum vansköpunum í allt að 4.000 börnum.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC voru konur sem fengu lyfið valproate allt að fjórum sinnum líklegri en aðrar til að eignast vansköpuð börn samkvæmt niðurstöðum rannsóknar franskrar lyfjaeftirlitsstofnunar.

Tengsl lyfsins við fæðingargalla hafa verið þekkt frá 9. áratug síðustu aldar og frönskum læknum er ráðlagt að gefa það ekki stúlkum, konum á barnsburðaraldri eða óléttum konum.

Lyfið hefur verið meðal annars verið selt undir markaðsheitunum Epilim, Depakine, Depakote og Stavzor. Það kom fyrst á markað í Frakklandi árið 1967.

Franska lyfjaeftirlitsstofnunin hefur komist að þeirri niðurstöðu að 2.150 til 4.100 börn hafi þjáðst af fæðingargöllum af völdum lyfsins. Börnin fæddust meðal annars með ófullvaxinn hrygg og hjarta- og kynfæragalla. Börn kvennanna voru einnig líklegri til að þjást af einhverfu og misþroska.

Konur sem fengu lyfið vegna geðhvarfa urðu síður fyrir skaðlegum áhrifum en þær sem fengu það vegna flogaveiki. Ástæðan er talin sú að þær fyrrnefndu fengu minna af lyfinu. Þær voru engu að síður tvisvar sinnum líklegri til að ala börn með fæðingargalla en konur sem ekki fengu lyfið.

Framleiðandi lyfsins, Sanofi, hefur ekkert tjáð sig um niðurstöður rannsóknarinnar enn sem komið er. Einhverjir þeirra sem urðu fyrir skaða af völdum lyfsins hafa gagnrýnt fyrirtækið og frönsk stjórnvöld fyrir að hafa varað of seint við aukaverkunum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×