Innlent

Fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu ritstýrir Þjóðmálum

Kjartan Kjartansson skrifar
Gísli Freyr var dæmdur í átta mánaða fangelsi vegna lekamálsins.
Gísli Freyr var dæmdur í átta mánaða fangelsi vegna lekamálsins. Vísir/GVA
Gísli Freyr Valdórsson, sem sakfelldur var fyrir að leka trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra, er tekinn við sem ritstjóri tímaritsins Þjóðmála. Kjarninn greinir frá þessu.

Vitnar Kjarninn til lokaðrar stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Gísla Freys. Fyrsta tölublaðið undir hans ritstjórn sé í dreifingu. Upplýsingar um ritstjórn Þjóðmála er ekki að finna á vefsíðu tímaritsins.

Þjóðmál er íhaldssamt tímarit um stjórnmál og menningu sem kemur út ársfjórðungslega. Tekur Gísli Freyr við af Óla Birni Kárasyni sem ritstjóri tímaritsins en hann tók sæti sem þingmaður eftir þingkosningarnar í haust.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Gísla Frey, sem var pólitískur aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra, í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi árið 2014 eftir að hann játaði að hafa lekið upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til fjölmiðla árið áður.

Upphaflega hafði hann neitað sök. Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra vegna lekamálsins svonefnda skömmu eftir dóminn yfir Gísla Frey.

Gísli Freyr hefur einnig reynslu úr blaðamennsku en hann var blaðamaður á Viðskiptablaðinu um nokkra hríð.

Vísir sagði frá því vorið 2015 að Gísli Freyr hefði snúið sér að lúxusferðaþjónustu með fyrirtækinu Luxury Adventures.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×