Innlent

Veggjakrot til vandræða í stjórnkerfinu

Pétur Fjelsted skrifar
Við Laugaveg og Bankastræti má víða finna veggjakrot við hlið útsýnisglugga verslana.
Við Laugaveg og Bankastræti má víða finna veggjakrot við hlið útsýnisglugga verslana. vísir/Pétur Fjeldsted
Uppgjöf virðist einkenna aðgerðir gegn viðvarandi veggjakroti í Reykjavík. Blaðamaður ræddi við einstakling sem stundaði veggjakrot á unglingsárum og þekkir þá hvöt sem býr að baki krotinu.

„Á þessum tíma var ég í uppreisn og var alveg sama hvað ég var að skemma, vildi sýna að það skipti mig engu máli. Mér leið illa og þetta var mitt fix,“ segir veggjakrotarinn fyrrverandi, sem ekki vill láta nafns síns getið. Hann kveðst hafa leiðst út í neyslu í kjölfarið en feti nú betri braut og telur að fræðsla og forvarnir varðandi veggjakrot geti skilað árangri.

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, verkefnastjóri miðborgarmála
Í miðborginni er veggjakrot áberandi. Cayla Jean, afgreiðslukona við Laugaveg, segir að veggjakrot hafi aukist mikið í Reykjavík. Það hafi versnað til muna undanfarin ár.

„Ég bjó á Íslandi fyrir nokkrum árum. Þegar ég flutti hingað aftur sá ég mikla aukningu. Meira að segja í úthverfum Cleveland í Bandaríkjunum, heimaborg minni, er mun minna veggjakrot. Þar er mikið af ungu fólki sem stundar slíkt en mér finnst undarlegt að vandamálið sé meira á Íslandi,“ segir viðmælandi okkar.

Auglýsingaskilti við Austurstræti, sem sýnir fagra náttúru Íslands, er útkrotað.
Kaupmaður við Laugaveg, sem starfað hefur þar síðan 1978, segir svipaða sögu. „Þetta er sveiflukennt. Stundum mikið og stundum ekkert í langan tíma. Við eigum málningu og málum yfir veggjakrot jafnóðum. Ef það næst í þá sem krota á að vera hægt að gera eitthvað við því en það virðist ekki vera hægt. Löggan ræður ekkert við þetta.“

Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík, segir að hlutverk samfélagsins í heild sé að taka á þessum málum. Fólk á ýmsum aldri stundi veggjakrot, ekki bara börn og unglingar. Hann segir að veggjakrot flokkist sem skemmdarverk. Þau séu á könnu lögreglu en flókið geti verið að rannsaka slík mál ef ekki eru til gögn um gerendur.

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir starfaði á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og hefur góða þekkingu á þessum málaflokki. Að hennar mati snýst baráttan við veggjakrotið um langtímamarkmið og samvinnu margra aðila. Hún segir ótækt að opinberir aðilar ausi miklu fé í hreinsun veggjakrots sem skili hreinni borg einungis í nokkra mánuði, því veggjakrotið komi fljótlega aftur. Fjármunum skattgreiðenda sé þannig illa varið.

Cayla Jean, afgreiðslukona við Laugaveg
„Viðurlögum við veggjakroti hefur ekki verið beitt síðan 2008, því fólk veigrar sér við því að kæra. Fólk gefst upp. Þeir sem krota eru farnir þegar lögreglan kemur,“ segir Sæunn.

Vandamálið er stærra en fólk gerir sér grein fyrir og hægt er að taka á með góðu móti, að mati Sæunnar. Mikilvægt sé að upplýsa almenning. „Veggjakrot hefur ekkert með vegglist að gera heldur er verið að skemma eigur fólks, svipað og að rispa bíl.“

Jafnvel geti kostað nokkrar milljónir að lagfæra steinklæðningar húsa eftir olíusprey. Ábyrgð sölu­aðila slíkra brúsa sé sömuleiðis mikil, ekki síður en annarra aðila. Mestu máli skipti að allir taki höndum saman í sátt og beiti aðferðum sem virki, til þess að lágmarka skaðann vegna veggjakrots. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×