Erlent

Vilja meiri mótmæli

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá mótmælum miðvikudags.
Frá mótmælum miðvikudags. Nordicphotos/AFP

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela hvöttu í gær til áframhaldandi mótmæla. Á miðvikudag mótmæltu þúsundir á götum höfuðborgarinnar Caracas. Kölluðu aðgerðasinnar mótmælin „móður allra mótmæla“.

Ríkisstjórn forsetans Nicolas Maduro hefur verið harðlega mótmælt undanfarið. Hafa mótmælin oft og tíðum orðið ofbeldisfull og létu þrír lífið í vikunni. Samanlagt hafa níu farist frá því í lok mars.

Kveikjan að nýjustu mótmælunum var ákvörðun hæstaréttar um að rjúfa þing, en þar fór stjórnarandstaðan með meirihluta. Ákvörðuninni var þó snúið við nokkru síðar. Ekki bætti úr skák þegar stjórnarandstöðuleiðtoganum Henrique Capriles var meinuð þátttaka í stjórnmálum næstu fimmtán árin. Tilkynnt var um þá ákvörðun þann 7. apríl.

Gífurleg efnahagsvandræði hrjá Venesúela. Matur og lyf eru af skornum skammti, verðbólga mikil og atvinnuleysi um 25 prósent.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira