Innlent

Reyndi að stinga lögregluna af

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan tók nokkra ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum í gær og nótt.
Lögreglan tók nokkra ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum í gær og nótt. Vísir/Eyþór
Ökumaður bifreiðar sem lögreglan stöðvaði við Heiðargerði í Reykjavík skömmu eftir klukkan tvö í nótt reyndi að komast undan lögreglunni með því að hlaupa af vettvangi. Hann var svo handtekinn en farþegar í bifreiðinni náðu að komast undan.

Lögreglan grunar ökumanninn um akstur undir áhrifum fíkniefna, að hafa ekið án þess að vera með ökuréttindi auk brota á vopnalögum og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Fjórir aðrir ökumenn voru teknir vegna gruns um akstur undir áhrifum og tveir til viðbótar voru teknir sem höfðu ekki ökuréttindi.

Þá hafði lögreglan afskipti af tveimur konum í bíl við Kópavogskirkju en talið var að þær væru að neyta fíkniefna. Konurnar voru þó ekki með fíkniefni meðferðis og kváðust ekki vera með lykla að bílnum. Lögreglumenn reyndu þá að hringja í eiganda bifreiðarinnar en náðu ekki sambandi við hann.

Stuttu síðar var svo tilkynnt um að bifreiðin væri stolin og hafði lögregla þá aftur afskipti af konunum sem þá voru staddar í Breiðholti. Þær voru handteknar grunaðar um að hafa stolið bílnum og vistaðar í fangageymslu fyrir rannsókn máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×