Erlent

Hafði áður reynt að myrða þrjá lögreglumenn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Öryggisgæsla var aukin í miðborg Parísar í gærkvöldi eftir árásina.
Öryggisgæsla var aukin í miðborg Parísar í gærkvöldi eftir árásina. vísir/getty
Maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið lögreglumann til bana og sært tvo til viðbótar á Champs Élysées í París í gærkvöldi var til rannsóknar hjá frönskum lögreglunni þar sem hann hafði sýnt að hann ætlaði sér að myrða lögreglumenn. Árásarmaðurinn, sem var 39 ára gamall, hafði árið 2005 verið dæmdur í fangelsi fyrir morðtilræði gegn þremur lögreglumönnum.   

Yfirvöld í Frakklandi hafa ekki gefið upp hver maðurinn var en hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Maðurinn keyrði upp að lögreglubíl á Champs Élysées um klukkan níu í gærkvöldi og hóf skothríð að lögreglubíl sem lagt var í götunni. Hann skaut einn lögreglumann í bílnum til bana og særði síðan tvo aðra sem stóðu skammt frá.

Árásarmaðurinn var síðan skotinn til bana þegar hann reyndi að flýja af vettvangi. Lögreglan gerði húsleit á heimili í Seine-et-Marne, sem er rétt fyrir utan París, og þá er eins manns leitað í tengslum við árásina.

Champs Élysées var lokað eftir árásina og öryggisgæsla aukin í miðborg Parísar. Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna er á sunnudaginn og hafði öryggisgæsla þá þegar verið aukin vegna þeirra. Tveir menn voru til að mynda handteknir á þriðjudag grunaðir um að leggja á ráðin um mannskæða árás.


Tengdar fréttir

Íslendingur í París sá ekkert annað en vopnaða lögreglumenn

Árásarmaður myrti lögregluþjón í París í gær. Hryðjuverkadeild lögreglu rannsakar málið. Árásarmaðurinn var felldur á vettvangi. Íslendingur á svæðinu segir lögregluþjóna allt sem hann hafi séð. ISIS lýsir yfir ábyrð á árásinni.

Trump sendir samúðarkveðjur til Frakklands

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi samúðarkveðjur til Frakklands í kjölfar árásarinnar sem varð í París í kvöld. Talið er að minnst einn sé látinn og tveir alvarlega særðir eftir árásina sem sögð er vera hryðjuverkaárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×