Viðskipti innlent

Norðursigling, Bláa lónið og Íslenskir fjallaleiðsögumenn tilnefndir til Íslensku þekkingarverðlaunanna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Bláa lónið er meðal fyrirtækja sem tilnefnd eru til Íslensku þekkingarverðlaunanna.
Bláa lónið er meðal fyrirtækja sem tilnefnd eru til Íslensku þekkingarverðlaunanna. vísir/gva
Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga stendur fyrir vali á þekkingarfyrirtæki ársins og viðskipta-/hagfræðingi ársins á hverju ári og verða verðlaunin afhent á Íslenska þekkingardeginum á Fosshótel Reykjavík þann 25.apríl nk. frá kl.16:00-18:00. Að þessu sinni er þema þekkingarverðlaunanna „Fagmennska og færni í ferðaþjónustu“ og verður það fyrirtæki eða stofnun sem þykir hafa skarað fram úr verðlaunað. Einnig verður viðskipta- eða hagfræðingur ársins heiðraður.

Félagið sendi á dögunum út könnun í gegnum póstlista félagsins þar sem óskað var eftir tilnefningum til þekkingarverðlaunanna og viðskipta-/hagfræðings ársins en skipaðar voru tvær dómnefndir til að skera endanlega úr um hverjir hlytu verðlaunin í ár. Í dómnefndunum sátu að þessu sinni:

Þekkingarfyrirtæki ársins

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ.

Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaklasans

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups

Sverrir Sigursveinsson, viðskiptafræðingur og stjórnarmaður í FVH.

Að þessi sinni eru þrjú fyrirtæki tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna en það eru Norðursigling, Bláa lónið og Íslenskir fjallaleiðsögumenn segir í tilkynningu.

Á Þekkingardeginum verður haldin stutt móttaka þar sem þau fyrirtækin sem tilnefnd eru kynna starfsemi sína. Forseti Ísland, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir þekkingarverðlaunin og heiðrar viðskiptafræðing eða hagfræðing ársins. Þá munu formenn dómnefndanna tilkynna og færa rök fyrir niðurstöðum sínum. Athöfninni lýkur síðan með samkomu undir ljúfum tónum og léttum veitingum.

Frítt er inn á viðburðinn fyrir alla en hægt er að skrá sig hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×