Viðskipti innlent

Hlutabréf í N1 taka kipp

Sæunn Gísladóttir skrifar
Árshlutareikningur 1. ársfjórðungs 2017 verður birtur 26. apríl næstkomandi.
Árshlutareikningur 1. ársfjórðungs 2017 verður birtur 26. apríl næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Gengi hlutabréfa í N1 hafa hækkað um 3,88 prósent í 198 milljón króna viðskiptum í dag. Líklega má rekja hækkunina til þess að félagið tilkynnti í morgun að EBITDA spá hefði verið hækkuð um 100 milljónir.

Í tilkynningu með upplýsingum í aðdraganda árshlutauppgjörs fyrsta ársfjórðungs 2017 kemur fram að samkvæmt drögum að uppgjöri 1. ársfjórðungs 2017 hjá N1 hf. er EBITDA um 520 milljónir króna samanborið við 374 milljónir króna á sama fjórðungi 2016.

Umferð á þjóðvegum landsins jókst um 14,1 prósent á milli fyrsta ársfjórðungs 2016 og 2017 og skilaði það sér í aukinni sölu á bifreiðaeldsneyti sem jókst um 8,7 prósent í magni á milli tímabila. Jafnframt var þróun á olíuverði félaginu hagstæð á fjórðungnum auk þess sem að önnur vörusala skilaði afkomu umfram áætlanir.

Í ljósi afkomu 1. ársfjórðungs hefur EBITDA spá félagsins verið hækkuð um 100 milljónir króna eða í 3.500 - 3.600 milljónir króna. Það skal þó áréttað að rekstur N1 er sveiflukenndur og árstíðabundinn en stærsti hluti EBITDA fellur til á 2 og 3. ársfjórðungi hvers árs. 

Árshlutareikningur 1. ársfjórðungs 2017 verður birtur 26. apríl næstkomandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira