Erlent

Hækka viðbúnaðarstig vegna hátíðar hersins í norðri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá heræfingu í Suður-Kóreu.
Frá heræfingu í Suður-Kóreu. Vísir/AFP

Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa hækkað viðbúnaðarstig sitt vegna afmælishátíðar hers nágranna sinna í norðri. Gífurlegur viðbúnaður er við landamæri ríkjanna og hjá nágrönnum þeirra, en talið er mögulegt að Norður-Kórea stefni að kjarnorkuvopnatilraun á næstunni.

Næsta þriðjudag fagnar Norður-Kórea því að 85 ár verða liðin frá því að her ríkisins var stofnaður. Á sama tíma lýkur umfangsmiklum æfingum hersins.

Bandaríkin og Suður-Kórea hafa haldið því fram í nokkrar vikur að til standi að sprengja kjarnorkuvopn á næstunni í trássi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna.

Sjá einnig: Gera ekki kjarnorkutilraunir en spila þess í stað blak

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni segir talsmaður Sameiningarráðuneytis Suður-Kóreu að náið sé fylgst með hernum í norðri.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur vakið reiði í Suður-Kóreu eftir að hann sagðist vera að senda Carl Vinson-flotadeildina til Kóreuskagans. Svo virðist þó sem að það hafi ekki verið rétt og að flotadeildin hafi verið á leið til æfinga við strendur Ástralíu. Því er þó enn haldið fram að flotadeildin muni fara til Kóreu.

Sjá einnig: Segjast hættir að treysta Trump

Bandarískir embættismenn segja að sprengjuflugvélar Kína hafi verið færðar á hærra viðbúnaðarstig. Líkur eru leiddar að því að það sé svo þeir geti brugðist hraðar við öllum vendingum í Norður-Kóreu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira