Viðskipti innlent

Metfjölgun starfa en fækkaði hjá hinu opinbera

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ferðamenn kynna sér skreið í Hafnarfirði en störfum fjölgaði einmitt mest í ferðaþjónustu á síðasta ári.
Ferðamenn kynna sér skreið í Hafnarfirði en störfum fjölgaði einmitt mest í ferðaþjónustu á síðasta ári. Vísir/Vilhelm
Fjöldi starfa hjá hinu opinbera dróst saman á síðasta ári meðan launþegum fjölgaði um 5% á milli ára.

Þetta er meðal þess sem greint er frá í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem kom út í morgun.

Meðalfjöldi launþega hér á landi var rúm 180 þúsund á síðasta ári og fjölgaði þeim um 8.500 frá fyrra ári. Fjölgunin nemur um 5% sem er „ umtalsvert meiri fjölgun starfa hlutfallslega séð en verið hefur síðustu ár,“ eins og það er orðað.

Ferðaþjónustan fyrirferðamikil sem fyrr

Um 44% af fjölgun launþega á síðasta ári segir hagfræðideildin að skýrist af fjölgun starfa í greinum sem snúa að íslenskri ferðaþjónustu. Alls fjölgaði störfum í ferðaþjónustugreinum um tæplega 3.800 og var fjölgunin 18,5% milli ára. Mannvirkjagerð og byggingarstarfsemi (16,5%) sem og heild- og smásala (12%) lögðu einnig sitt af mörkum í heildarfjölgun starfa.

Hagfræðideildin segir það „athyglisvert að sjá að í þeirri miklu starfafjölgun sem varð á síðasta ári dróst fjöldi starfa hjá hinu opinbera saman um 8 stöðugildi“ en árið í fyrra var það fyrsta í fjögur ár þar sem launþegum hjá hinu opinbera fækkar milli ára.

Fækkunin skýrist af fækkun í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu en þar fækkaði störfum um 267 eða um sem nemur 0,6%. Störfum í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu fjölgaði hins vegar um 258 eða 1,7%.

Hagsjá Landsbankans má nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×